Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
10. ágúst. 2011 06:44

Hjólar um heiminn til að vekja athygli á alnæmi

Indverjinn Somen Debnath kom síðdegis í gær á Akranes með strætisvagni frá Reykjavík. Það væri líklega ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Somen hefur ferðast um víða veröld á hjóli sínu með það að markmiði að fræða fólk um alnæmi. „Ég lagði af stað árið 2004 frá heimabæ mínum í Basanti, nálægt Vestur-Bengal. Ég vildi fræða fólk um alnæmi eða HIV og þá aðallega svo að fólk verði meðvitað um sjúkdóminn og smitleiðir. Það er hinsvegar bara önnur hliðin á peningnum því ég er líka að kynna indverska menningu svo það er margt í þessu,” segir Somen.

Hittir gamla nágranna á Akranesi

 

Somen mun fara hringinn um landið og fer norðurleiðina. Hann var kominn til Reykjavíkur þegar hann komst að því í gegnum indverska sendiráðið að á Akranesi byggju samlandar hans. „Þau bjuggu mjög nálægt mér á Indlandi og eru nánast eins og ættingjar mínir. Ég fór því aðeins til baka á leiðinni og tók strætó því mér var sagt að það væri bannað að hjóla í gegnum Hvalfjarðargöngin. Ég verð aðeins hjá þeim hérna og held síðan áfram ferðinni. Þegar ég fer frá Íslandi fer ég til Grænlands,” segir Somen sem hefur hjólað vel yfir 80.000 kílómetra á sjö árum. Hann hefur farið í gegnum Suður-Asíu og Mið-Austurlönd. Þar lenti hann í kröppum dansi og sagði frá því í viðtali við breska dagblaðið Telegraph.

 

Tekinn til fanga í Afganistan

 

Soman var á leið sinni í gegnum Afganistan þegar hann var tekinn af herskáum Talibönum sem töldu hann njósnara. Þeir héldu honum í þrjár vikur í lítilli dýflissu þar sem hendur hans og fætur voru bundnar við stól og þá var einnig bundið fyrir augu hans. Tungumálaörðugleikar gerðu honum erfitt fyrir því hann kunni ekkert fyrir sér í tungumáli innfæddra og því varð hann fyrir reglulegum barsmíðum vegna þess að hann hlýddi ekki skipunum. „Ég komst svo að því að einn þessara manna kunni svolítið fyrir sér í ensku og náði að sannfæra hann um að ég fengi að elda fyrir þá máltíð og sanna þannig að ég væri indverskur,” segir Somen sem gat eldað mat frá sínu heimalandi.

 

„Ég eldaði að sjálfsögðu sterkan, indverskan mat og þeir urðu mjög ánægðir með matinn. Þeir ákváðu að sleppa mér og ég gat sannfært þá um að ég væri bara ævintýramaður sem hefði átt leið um héraðið þeirra,” segir Soman sem var þó ekki alveg sloppinn því nokkru síðar var hann aftur tekinn til fanga og færður í fangageymslu, þar sem hann var eini fanginn. Þar var hann ítrekað yfirheyrður en slapp eftir 24 daga og komst heill frá. Þessi hræðilega upplifun hefur þó ekki stöðvað Soman Debnath sem heldur ótrauður ferð sinni áfram. Næst á dagskrá er að ljúka við Evrópulöndin og þá tekur Afríka við.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is