11. ágúst. 2011 09:01
Sundkonan Ragnheiður Runólfsdóttir frá Akranesi var um árabil ein fremsta íþróttakona landsins og var m.a. valin íþróttamaður ársins 1991. Frá árinu 1999 hefur hún þjálfað hjá Sundfélagi Akraness þar sem hún hefur séð um ungbarnasund og þjálfun barna allt frá fjögurra ára aldri upp í þrettán ára. Hún hefur nú ákveðið að söðla um og þiggja boð frá sundfélaginu Óðni á Akureyri um að gerast afreksþjálfari hjá félaginu. „Ég ákvað að slá til og prófa þetta. Ég hef verið lengi á Skaganum og það er kominn tími til að breyta,” sagði Ragnheiður þegar Skessuhorn heyrði í henni þar sem hún var að koma sér fyrir á Akureyri í rólegheitum.
„Ég kveð Sundfélag Akraness með söknuði. Ég hef þjálfað marga krakka þarna alveg frá því að ég byrjaði hjá félaginu og sum þeirra byrjuðu meira að segja hjá mér í ungbarnasundi. Það er því frekar erfitt að kveðja börnin sem ég hef verið svo heppin að fá að kynnast,” segir Ragnheiður.
Nánar er rætt við sundkonuna og þjálfarann Ragnheiði Runólfsdóttur í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.