18. ágúst. 2011 09:21
Enski framherjinn Gary Martin mun ekki spila meira með knattspyrnuliði ÍA í sumar. Frá þessu var greint á fréttavefnum Fótbolti.net í gærkvöldi. Martin hefur verið lánaður til Hjörring sem leikur í næst efstu deildinni í Danmörku. Hjörring hefur möguleika á því að kaupa Martin á þeim tíma sem hann er í láni hjá þeim en lánssamningurinn gildir út þetta ár. Í samtali við Fótbolti.net staðfesti Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍA að Martin væri á förum. „Aðalmarkmið sumarsins er komið og við höfum breiðan hóp til að ná næsta markmiði sem er að vinna deildina,” sagði Þórður.
Hann sagði einnig að með þessu fengi Martin aukinn spilatíma en danska deildin hófst nú um mitt sumar og fer í vetrarfrí í lok nóvember. Hann hefði því meiri möguleika á því að sýna hæfileika sína en fleiri lið hafa haft Martin í sigtinu í sumar. Þá greindi Þórður einnig frá því að samningaviðræður við Mark Doninger væru langt á veg komnar og að allar líkur væru á því að hann spilaði með Skagamönnum í Pepsi-deildinni næsta sumar.