18. ágúst. 2011 11:30
Nú í vikunni eru nokkur störf auglýst laus til umsóknar á Vesturlandi. Nefna má að í Skessuhorni sem kom út í gær er auglýst eftir fjármálaráðgjafa fyrirtækja við Arionbanka í Borgarnesi, en þar er krafist háskólamenntunar. Þá auglýsir Hyrnan í Borgarnesi eftir vaktstjóra í verslun. Í Snæfellsbæ eru nokkur störf í boði, samkvæmt bæjarblaðinu Jökli. Brauðgerð Ólafsvíkur vantar starfskraft frá klukkan 13-18, Snæfellsbær auglýsir eftir umsjónarmanni við félagsmiðstöðina Afdrep og þá er laus 60-70% staða verkefnastjóra við Átthagastofuna í Ólafsvík. Loks er á vef Vinnumálastofnunar á Vesturlandi sagt frá að Mýranaut á Mýrum vanti starfskraft í sveit og þá vantar Fjölbrautaskóla Snæfellinga stuðningsfulltrúa á starfsbraut skólans í Grundarfirði.
Atvinnuleysi á Vesturlandi er tiltölulega lítið miðað við flesta aðra landshluta, eða 3,6% í júlímánuði síðastliðnum. Þá fjölgaði atvinnulausum lítillega milli mánaða, eða um fjóra bæði í Snæfellsbæ og Hvalfjarðasveit og tvo í Grundarfirði. Hins vegar fækkaði um níu á skrá á Akranesi. Í öðrum sveitarfélögum urðu litlar breytingar milli mánaða í fjölda atvinnulausra.