19. ágúst. 2011 03:12
Siðanefnd Lyfjafræðingafélags Íslands hefur úrskurðað að þrír félagsmenn sem tengdust broti Lyfja og heilsu gagnvart Apóteki Vesturlands, hafi í því máli brotið með háttsemi sinni fjórar greinar siðareglna félagsins. Nefndin mun veita lyfjafræðingunum þremur, Eysteini Arasyni, Gylfai Garðarssyni og Jóni Þórðarsyni áminningu. Á þeim tíma sem brotin voru framin var Eysteinn lyfjastjóri Lyfja og heilsu, Gylfi lyfsali fyrirtækisins á Akranesi og Jón gæðastjóri Lyfja og heilsu. Samkeppniseftirlitið úrskurðaði á sínum tíma að Lyf og heilsa hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með aðgerðum sínum gegn Apóteki Vesturlands, hafi þar misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Úrskurðurinn var kærður til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti úrskurð Samkeppniseftirlitsins þann 11. júní 2010.
Með framferði sínu í málinu telur Siðanefnd LFÍ að ofangreindir félagsmenn hafi brotið þá meginreglu Alþjóðasamtaka lyfjafræðinga að vinna af heiðarleika og trúmennsku í samskiptum sínum við aðrar heilbrigðisstéttir, þar á meðal lyfjafræðinga, að taka ekki þátt í neinni hegðun eða athöfn sem líkleg er til að grafa undan eða kasta rýrð á það traust sem stétt lyfjafræðinga nýtur.
Greinar siðareglnanna sem lyfjafræðingarnir þrír brutu, samkvæmd úrskurði siðanefndarinnar, voru númer fimm, sex, sjö og tólf. Brot gegn tólftu grein siðareglna er orðrétt úr úrskurðinum: “Með aðkomu sinni að aðgerðum Lyfja og heilsu til að hindra að Apótek Vesturlands gæti í fyrsta lagi hafið starfsemi á Akranesi og í öðru lagi að apótekið gæti starfað í lögmætu samkeppnisumhverfi á Akranesi, er ljóst að allir umræddir lyfjafræðingar hafa unnið gegn samvinnu innan stéttar sinnar í stað þess að rækta hana.” Úrskurðurinn í heild sinni er birtur í nýútkomnu blaði Lyfjafræðingafélags Íslands.