24. ágúst. 2011 04:05
“Þetta var gaman en samt svolítið þreytandi þegar þeir þurftu að taka myndir aftur og aftur á sama staðnum. Það var flott að sjá myndirnar en samt svolítið skrítið,” segir Helgi Rúnar Bjarnason sjö ára strákur á Akranesi, en Helgi og fjölskylda hans lentu í heilmiklu ævintýri í sumarfríinu. Það voru kvikmyndatökumenn frá RSA films í Bandaríkjunum sem óskuðu eftir litlum strák frá Íslandi til að vera þátttakandi í myndaseríu frá helstu náttúruperlum á suðausturlandi þar sem landslagið væri ekki ólíkt umhverfi á öðrum hnöttum; sandur og stuðlaberg. Umrætt tónlistarmyndband var síðan frumsýnt á vef National Geographic sjónvarpsstöðvarinnar sl. fimmtudag.
Ingibjörg Barðadóttir móðir Helga Rúnars segir að venjulega hafi sumarfríið hjá fjölskyldunni farið í ferðir á fótboltamót, en í þetta skipti hafi það snúist um umræddar kvikmyndatöku, sem eigi rætur sínar að rekja til frænkunnar Svönu Gísladóttur sem starfar hjá RSA films. Þessar tökur voru í kringum fyrstu helgina í júlí, einmitt þegar hlaup hófst í Skaftá sem hreif með sér brúna yfir Múlakvísl á Mýrdalssandi. Það kostaði mun meira umstang fyrir fjölskylduna sem m.a. varð að skilja fellihýsið eftir á sveitabæ í Meðallandi við Kirkjubæjarklaustur og sækja hann viku síðar.
Nánar er rætt við Helga Rúnar Bjarnason og móður hans í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag. Myndbandið má sjá hér að neðan.