26. ágúst. 2011 11:52
Sjávarkistan – sölumarkaður með ferskan fisk af Snæfellsnesi, hefur verið rekin í húsnæði Sjávarsafnsins í Ólafsvík í sumar. Þetta er tilraunaverkefni til að kanna rekstrargrundvöll þess að selja fisk í sjávarbyggð. Fiskvinnslufyrirtæki í Snæfellsnesi hafa staðið við bakið á þessu verkefni með því að sjá Sjávarkistunni fyrir söluvöru. Allir sem nýtt hafa sér þessa þjónustu hafa verið mjög ánægðir og reynt hefur verið að bregðast við óskum viðskiptavina um aukið framboð af ýmsum tilbúnum fiskréttum, sem mælst hafa mjög vel fyrir. Nú er komið að lokum þessa verkefnis og síðustu opnunardagar Sjávarkistunnar eru um næstu helgi og Sjávarkistan lokar sunnudaginn 28. ágúst. Framtíðin verður svo að leiða í ljós hvort einhver grípur þennan bolta á loft og sér atvinnutækifæri í því að setja upp fisksölu á Snæfellsnesi.
Sveitamarkaður á sunnudaginn
Að sögn Margrétar Bjarkar Björnsdóttur hafa margir spurt hvort ekki væri hægt að selja fleiri matvörur sem framleiddar eru á Snæfellsnesi í Sjávarkistunni, t.d. grænmeti o.fl. „Því langar okkur til að ljúka þessu verkefni með því að halda „sveitamarkað“ í Sjávarkistunni á sunnudaginn 28. ágúst, frá kl. 13:00 – 16:00. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að selja grænmeti og aðra matvörur af Snæfellsnesi á markaðsdegi í Sjávarkistunni, til að hafa samband við Átthagastofu Snæfellsbæjar og skrá sig. Síminn í Átthagastofu er: 433 6929, en einnig er hægt að hafa samband í gegn um tölvupóst: atthagastofa@snb.is,“ segir Margrét Björk.