Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. september. 2011 01:16

Framkvæmdastjórinn segir síst meiri niðurskurð hjá HVE í Borgarnesi

Guðjón Brjánsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands segir í samtali við Skessuhorn að það sé ofur eðlilegt að starfsfólki og íbúum á Vesturlandi sé brugðið við þær kröfur sem stjórnvöld gera um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu. Vísar hann þar til ályktunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá í gær og sagt var frá í frétt hér á vefnum í morgun. „Það á við um Borgarnes eins og aðra staði.  Þessar aðstæður eru okkur öllum mikil raun og gera miklar kröfur til starfsmanna sem hugsa þurfa skipulag þjónustunnar að nýju, hafa reyndar verið að því og þurfa þess áfram um sinn. Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, þá er rétt að undirstrika að við erum síður en svo að boða meiri niðurskurð í Borgarnesi en almennt gerist innan okkar víðfeðmu stofnunar, þvert á móti,“ segir Guðjón.

Glímt við niðurskurð

Hann segir þó að blákaldur veruleikinn blasi hinsvegar við: „Ef við aðhöfumst ekkert strax á þessu ári verður rekstrarhalli innan stofnunarinnar að óbreyttu um 100 milljónir í árslok. Auk þess bíða 54 milljónir sem lagðar voru til hliðar en áttu að koma til niðurskurðar á þessu ári en falla á okkur á næsta ári. Þar á ofan er síðan verið að búa okkur undir 1,5% niðurskurð á fjárlögum. Þannig að viðfangsefnið gæti orðið hátt í 200 milljónir árið 2012 eða 7% af núverandi tekjum og það er talsverð glíma. Enginn þarf að láta sig dreyma um að það verði framkvæmt án þess að slíkar hremmingar hafi áhrif á þjónustuna og starfsumhverfið og það á við um allar starfseiningar HVE, þar verður enginn undanskilinn, við tökum saman á þessu.“

 

Vegna orða sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að misræmis gæti í fjárveitingum til einstakra heilsugæslustöðva á starfssvæði HVE, segir Guðjón að misræmi í fjárveitingum til einstakra starfsstöðva í umdæminu byggir á nokkurra ára reiknilíkani ráðuneytisins sem sé auðvitað mannanna verk. „Reiknilíkan þetta er umdeilanlegt en birtingarmyndin er þessi, í mörgum tilvikum skýranleg. Þar sem íbúafjöldinn er minni, þar verður kostnaður meiri ef við gerum ráð fyrir tilteknum viðbúnaði þjónustu, um það snýst málið. Ljóst var við sameiningu átta starfseininga á Vesturlandi hinn 1. janúar 2010 að þessi atriði þyrfti að stokka upp og endurstilla í samræmi við þörf á svæðinu, raunveruleg verkefni og þróun búsetu. Það hefur komið í okkar hlut að vinna að þessu skipulagi en við höfum viljað fara okkur hægt, aðstæður eru erfiðar í samfélaginu. Endurskipulag mun á næstu misserum að öllum líkindum fyrst og fremst byggjast á tilfærslu faglegrar þjónustu innan svæðisins því ekki er að vænta meira fjár til starfseminnar ef marka má umræðuna um þessar mundir. Í því sambandi eru einkum tvö fjölmennustu svæðin utan Akraness sem hafa þar forgang, þ.e. Borgarnes og Snæfellsbær. Á hvorugum þessara staða hefur komið til lækkun á árlegum rekstrargrunni frá sameiningu átta starfsstöðva í Heilbrigðisstofun Vesturlands.“

 

Guðjón segir að með mikilvægi heilsugæslunnar í huga hafi verið hrundið af stað sérstökum verkefnum í skipuriti HVE, þ.e. stöður sviðsstjóra lækninga og hjúkrunar á heilsugæslusviði til að standa vörð um þann þátt, vinna að uppbyggilegum málum, koma með tillögur um samræmingu þjónustunnar og umfang einstakra verkefna og skipulag þeirra. Þessi atriði séu því stöðugt til umfjöllunar. Báðir þessir aðilar sitja reyndar í Borgarnesi, segir Guðjón.

 

Rætt við heimamenn á mánudaginn

Að lokum segir Guðjón að á framkvæmdastjórnarfundi HVE í gær hafi þessi málefni enn verið til umræðu og tekin um það ákvörðun að nú væri komið að gagngerri endurskoðun starfseminnar á öllu svæðinu við áætlanagerð fyrir árið 2012. „Það verða faglegir stjórnendur stofnunarinnar sem leiða munu þetta verkefni, ofangreindir sviðsstjórar heilsugæslunnar og framkæmdastjórar lækninga og hjúkrunar á HVE. Tillaga þeirra fær síðan umfjöllun framkvæmdastjórnar og verður hrint í framkvæmd í samráði við ráðuneytið. Hvað varðar ályktanir úr Borgarnesi, þá mun framkvæmdastjórn HVE eiga fundi með bæði starfsmönnum HVE á staðnum og sveitarstjórn á mánudag og fara yfir öll þessi atriði og skýra það sem er í okkar valdi,“ segir Guðjón Brjánsson að endingu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is