Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. september. 2011 10:06

Innflutt matvara hefur hækkað helmingi meira en innlendar búvörur

Í fréttatímum Ríkisútvarpsins í gær voru fluttar fréttir af aukinni verðbólgu og m.a. rætt við Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ um ástæður hennar. Taldi hann að skýringarnar væri að finna í verðhækkunum á íslenskum búvörum undanfarna mánuði og að búvöruframleiðendur væru að „taka meira til sín í skjóli einokunar,“ svo vitnað sé orðrétt í Gylfa Arnbjörnsson. Bændasamtök Íslands mótmæla harðlega málflutningi forseta ASÍ og vilja koma nokkrum atriðum á framfæri til að leiðrétta málflutning forseta ASÍ. „Sé horft lengra aftur í tímann en síðustu 12 mánuði og rýnt í vísitölu neysluverðs má sjá að innlendar búvörur hafa hækkað mun minna í verði en aðrar neysluvörur. Frá ársbyrjun 2007 hefur innfluttur matur hækkað um 60,2% en íslensk búvara aðeins um 32%. Almennt verðlag í landinu hefur hækkað um 43% frá ársbyrjun 2007.

Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hafa búvörur án grænmetis hækkað um 22,5% frá því í september 2008 og til dagsins í dag, sem er nánast það sama og almennt verðlag. Á sama tíma hefur innlend mat- og drykkjarvara, sem ekki er búvara, hækkað um 29,1% og innfluttar mat- og drykkjarvörur um 31,2%.“

 

Haraldur Benediktsson formaður BÍ minnir á að árið 2007 hafi ASÍ lagt til að öll tollvernd fyrir íslenskan landbúnað yrði felld niður. „Hefði þeim hugmyndum verið fylgt eftir má ætla að innflutningur búvara hefði aukist mikið og innlend landbúnaðarframleiðsla dregist saman. Það hefði bæði þýtt hærra verðlag á búvörum og einnig fækkað störfum í landbúnaði og tengdum greinum, s.s. í afurðastöðvum og ýmissi þjónustu.“

 

Haraldur segir að bændur hafi frá því að bankahrunið reið yfir lagt sitt af mörkum til að halda niðri vöruverði í landinu. „Samningar hins opinbera við bændur hafa verið endurskoðaðir og bændur og afurðastöðvar hafa dregið í lengstu lög að hækka verð á búvörum þrátt fyrir miklar aðfangaverðshækkanir. Sjálfsagt er að leita skýringa á verðhækkunum á matvörum sérstaklega en þá má ekki gleyma framangreindum staðreyndum. Til að finna skýringar á hækkuðu búvöruverði má minna á að nýgerðir kjarasamningar hækkuðu mest laun þeirra tekjulægstu. Stór hluti starfsmanna afurðastöðva er því miður í þeim hópi og snerta því launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum ASÍ þessi fyrirtæki óneitanlega. Spurning er hvar fyrirtækin áttu að taka þá hækkun annarsstaðar en að velta þeim út í verðlagið?“

 

Formaður Bændasamtakanna segir að á síðustu vikum hafi dunið á bændum ýmsar ásakanir þar sem staðreyndir virðist litlu máli skipta. „Formaður Samtaka verslunar og þjónustu sá ástæðu til þess í vikunni að hnýta í bændur vegna tollamála og núna birtist forseti ASÍ þar sem hann kennir landbúnaðinum um hækkandi verðbólgu. Í ljósi þessa er fróðlegt að skoða nýbirta skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir í skuldamálum. Þar kemur upp úr kafinu að hjá 13 verslunar- og þjónustufyrirtækjum hafa undanfarið verið afskrifaðir um 88,5 milljarða króna. Gæti ekki verið að kostnaður af þessum aðgerðum og allt sem á undan er gengið í íslensku efnahagslífi, gengishrun og óráðsía, sé þjóðinni meira íþyngjandi en störf nokkur þúsund bænda sem nýta landsins gæði,“ spyr Haraldur Benediktsson að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is