Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
20. október. 2011 11:01

Norðanfiskur sér sushiþyrstum fyrir bláuggatúnfiski

„Við keyptum þetta af Baldvini Njálssyni GK, en skipverjar á honum fengu tólf fiska í trollið á makrílveiðum og við tókum tvo af þeim,“ segir Pétur Þorleifsson framkvæmdastjóri Norðanfisks á Akranesi í samtali við Skessuhorn. „Þetta er frumraun okkar í skurði á bláuggatúnfiski en hann er dýrastur af túnfiskstegundunum og oft kallaður svarti demanturinn meðal túnfiskkaupenda og neytenda.“ Verið var að vinna annan túnfiskinn hjá Norðanfiski í gær. Hann vóg um tvöhundruð kíló og var sannarlega engin smásmíði. Pétur segir túnfiskinn fylgja makrílnum á veiðislóðir hér við land. Ekki fékkst gefið upp hvað borgað var fyrir fiskinn en til samanburðar má geta þess að dýrasti túnfiskur sem vitað er um var seldur á fiskmarkaði í Japan í janúar síðastliðnum. Hann vóg 324 kíló og var söluverð hans tæplega fjögur hundruð þúsund dollarar eða um 46 milljónir íslenskra króna.

Vakning í sushimenningu á Íslandi

„Það hefur verið talsverð vakning í sushi menningu hér á landi og neyslan hefur verið stigvaxandi frá ári til árs. Við erum þeir einu hér á landi sem höfum aðstöðu til að geyma fiskinn í sextíu gráðu frosti og það hefur skapað okkur sérstöðu þau þrjú ár sem við höfum verið að flytja inn túnfisk til sölu hér innanlands,“ segir Pétur. „Aukin gengd makríls í lögsögu okkar gefur fyrirheit um að bláuggatúnfiskurinn fari að veiðast í auknum mæli við Íslandsstrendur,“ segir Pétur. „Við höfum verið að flytja inn fullunninn bigeye og yellowfin túnfisk frá Víetnam en þetta er í fyrsta skipti sem bláuggatúnfiskur kemur inn á borð hjá okkur til verkunar. Við erum að flytja inn milli eitt og hálft til tvö tonn af túnfiski á mánuði þegar mest er að gera yfir sumarmánuðina. Hann fer allur í sölu til veitingastaða sem hafa sushirétti á sínum matseðli.“

 

Eina sem plagar er hráefnisskortur

Um 90% af framleiðslu Norðanfisks fer í sölu hér innanlands en auk hefðbundinnar vinnslu á afla veiddum í íslenskri lögsögu hefur innflutningur verið sívaxandi þáttur í rekstri fyrirtækisins frá árinu 2005. Norðanfiskur flytur meðal annars inn kóngakrabba, túnfisk, sverðfisk, hörpuskel, risarækju, smokkfisk og fleiri tegundir sem notaðar eru í sushigerð en veiðast ekki hér við land.

Pétur segir rekstur Norðanfisks ganga vel. „Það eina sem er að plaga okkur þessa dagana er hráefnisskortur til vinnslu og þá helst skortur á ýsu. Skýringarnar liggja í ótíð undanfarið og minni ýsukvóta. Á móti hefur komið að neysla á þorski hefur verið að aukast svo það vinnur á móti minna framboði og hækkandi verði á ýsu. Pétur segi efnahagshrunið ekki hafa haft mikil áhrif á starfsemi fyrirtækisins. „Verð á mörkuðum erlendis hafa ekki mikið hækkað í erlendri mynt en óhagstæður gengismunur hefur stórhækkað verðið hér í íslenskum krónum talið. Við höfum reynt eftir fremsta megni að velta því ekki áfram til viðskiptavina okkar en tekið skellinn af því sjálfir, sölu- og veltuaukning hefur vegið upp á móti minni framlegð fyrir hvert selt kíló svo við kvörtum ekki,“ segir Pétur að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is