Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. nóvember. 2011 12:34

Dýralæknaþjónusta ekki lengur tryggð á dagvinnutíma í Borgarfirði

Í dag tóku gildi ný lög um dýralæknaþjónustu á landinu. Í þeim felst m.a. að stöðum héraðsdýralækna er fækkað til muna, verða nú sex á öllu landinu í stað 14. Jafnframt verður sú breyting á héraðslæknaembættunum, að þau verði eftirlitsstörf aðskilin frá almennri dýralæknaþjónustu. Hér á Vesturlandi og fyrir Vestfirði er nú einn héraðsdýralæknir, staðsettur í Búðardal, en stöður héraðsdýralækna hafa verið lagðar niður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, Dalasýslu og á Snæfellsnesi. Ákveðnar sýslur eru skilgreindar í lögum sem dreifbýl svæði og í þeim hafa verið gerðir þjónustusamningar við dýralækna til að tryggja að praktiserandi dýralæknar séu þar til staðar. Þar sem Rúnar Gíslason fv. héraðsdýralæknir í Stykkishólmi hefur nú hætt störfum, hefur verið gerður þjónustusamningur við Hjalta Viðarsson dýralækni í Búðardal um að sinna Snæfellsnesi norðan Hítarár auk Dala, Reykhólahrepps og Stranda. Hins vegar hefur ekki verið gerður sambærilegur þjónustusamningur fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og stendur ekki til, samkvæmt heimildum Skessuhorns, enda flokkast sýslan ekki undir dreifbýl svæði í skilgreiningu laga þrátt fyrir að vegalengdir innan hennar séu miklar. Sambærileg svæði samkvæmt skilgreiningu laganna eru Skagafjörður, Eyjafjörður og Suðurland.

Þessu ástandi una starfandi dýralæknar í Borgarfirði illa eins og fram kemur í samtali við Hildi Eddu Þórarinsdóttur dýralækni. Gunnar Gauti Gunnarsson dýralæknir mun auk hennar áfram sinna svæðinu með aðsetri í Borgarnesi þrátt fyrir að hann hætti nú sem héraðsdýralæknir. Gunnar Gauti segir að vissulega geti komið upp sú staða að ekki náist í dýralækni á dagvinnutíma en vísar að öðru leyti til Matvælastofnunar sem hefur yfirumsjón með starfi dýralækna hér á landi.

 

Bitnar á velferð dýra

Með aðskilnaði eftirlits og þjónustu er því verið að draga úr opinberum greiðslum til starfandi dýralækna á landsbyggðinni. Þar sem Borgarfjörður flokkast ekki með dreifbýlum svæðum hefur starfandi dýralæknum í sýslunni, sem eru þau Hildur Edda og Gunnar Gauti, ekki verið tryggðar neinar greiðslur fyrir að standa dagvaktir. Hildur Edda segir að af þeim sökum treysti hún sér ekki til að starfa við þessar aðstæður á hefðbundnum dagvinnutíma. „Því miður er sú staða komin upp hér að ég sé mér ekki fært að sinna dýralæknisþjónustu á dagvinnutíma í héraðinu. Ekki fyrr en með tilkomu og skipulagningu dagvakta, því án greiðslna fyrir dagvaktir mun enginn bera ábyrgð á að dýralæknir verði til staðar virka daga frá klukkan 8 til 17. Það verður því að tryggja dagvaktir svo vel fari því okkur ber nú engin skylda til að vera á vakt virka daga á dagvinnutíma. Þessi staða er bæði fjandsamleg velferð dýra og ég einfaldlega treysti mér ekki til að starfa við þessi skilyrði,“ segir Hildur Edda í samtali við Skessuhorn.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is