04. nóvember. 2011 02:01
Í dag fer fram hið árlega Skammhlaup í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, en það er íþrótta- og skemmtidagur í skólanum. Nemendur mættu í svokallaðar skammhlaupsstofur í morgun og síðan var haldið í íþróttahúsið við Vesturgötu þar sem farið var í ýmsa leiki. Þegar blaðamann Skessuhorns bar að stóð einmitt yfir keppni í limbói, “Undir rána tja, tja, tja” eins og Ómar söng forðum. Það voru sem fyrr stelpurnar sem sýndu ótrúlegt fjaðurmagn og styrk í því að smeygja sér undir rána, sem að lokum var komin niður í 70 sentimetra og voru þá tvær eftir. Skammhlaupið hélt síðan áfram í skólanum, en í kvöld klukkan 18 verður svo Tónlistarkeppni Nemendafélags FVA haldin í Bíóhöllinni.