18. nóvember. 2011 04:12
Fjármálaráðherra mun fyrir jól leggja fram lagafrumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það kveður á um að tekinn verður upp nýr kolefnisskattur á stóriðjufyrirtæki í landinu. Að sögn Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness mun þessi nýi skattur verða þess valdandi að atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Íslandi, sem eru nú um 300 talsins, verði ógnað allverulega. Einnig sé ljóst að þessi nýi skattur mun verða þess valdandi að framleiðsla á sementi hér á landi muni brátt heyra sögunni til. „Þessi nýi skattur, ef af verður, verður síðasti naglinn í kistu Sementsverksmiðjunnar hér á Akranesi,“ segir Vilhjálmur.
Í ljósi alvarleika málsins fyrir atvinnulíf á og við Akranes, hefur Verkalýðsfélag Akraness ásamt bæjarstjóra Akraneskaupstaðar óskað eftir fundi með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og fulltrúum þeirra fyrirtæka sem málið varðar. Er stefnt að sá fundir verði í næstu viku.
„Það er skýlaus stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að þegar atvinnuöryggi okkar félagsmanna er ógnað jafn illilega og þessar nýju skattatillögur kveða á um, þá verður því mætt af fullri hörku. Því það síðasta sem við megum við núna er að störf í útflutningsgeiranum fari að tapast sökum skattpíningar stjórnvalda,“ segir Vilhjálmur Birgisson.
Mun slaga upp í launakostnað
Í færlu um málið á vef VLFA segir hann að sem dæmi þá liggi fyrir að þessi nýi skattur stjórnvalda muni þýða aukakostnað fyrir Elkem Ísland sem nemur 430 milljónum á árinu 2013 en skatturinn mun fara stighækkandi næstu tvö ár á eftir og á árinu 2014 verður kolefnisskattur kominn upp í 645 milljónir og á árinu 2015 í 860 milljónir króna. „Þessu til viðbótar þarf Elkem síðan að greiða kaup á kolefnisheimildum fyrir kísil-, málm- og járnblendiiðnað en sá kostnaður mun nema um 200 milljónum króna á ári til viðbótar. Til að sýna fáránleikann í þessu máli þá var heildarlaunakostnaður Elkem Ísland á árinu 2010 1,3 milljarðar þannig að þessir nýju skattar Steingríms Joð eru ígildi 50% af heildarlaunakostnaði fyrirtækisins. Og á árinu 2015 verður þessi skattur farinn að nálgast 85% af heildarlaunakostnaði fyrirtækisins. Á þessu sést hversu fáránleg þessi útfærsla er,“ segir Vilhjálmur.
Sjá nánar á vef félagsins: www.vlfa.is