Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. nóvember. 2011 02:25

Salka Valka frumsýnd í Lundarreykjadal í kvöld

Undanfarna daga hafa félagar í Ungmennafélaginu Dagrenningu í Lundarreykjadal unnið að sviðsetningu á Sölku Völku, hinni vel rómuðu sögu nóbelsskáldsins Halldórs Laxness. Er þetta sjöunda leikritið sem félagið setur á svið og það þriðja eftir Laxness. Hafa Lunddælingar æft stíft um átta vikna skeið undir styrkri leikstjórn Jakobs S. Jónssonar og ráðgera að frumsýna verkið í kvöld, föstudaginn 25. nóvember, í félagsheimili sínu í Brautartungu.

 

 

 

 

 

Gestir með sama áhugamál

Góðir gestir litu við á æfingu leikhópsins á dögunum. Fimmtudagskvöldið 18. nóvember komu í heimsókn nemendur úr 7. bekk Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og fylgdust með rennsli á fyrri hluta leikverksins ásamt kennara sínum, Magneu Kristleifsdóttur, foreldrum og forvitnum blaðamanni Skessuhorns. Þar sem Lunddælingar voru að koma Sölku Völku á fjalirnar, hafði Magnea af því tilefni brugðið á það ráð að lesa söguna fyrir nemendur sína og þannig nýtt tækifærið til koma þeim í kynni við nóbelsskáldið. Þannig myndi eitt af frægari skáldverkum Halldórs hitta nemendur, annars vegar í gegnum frásögn Halldórs sjálfs, og hins vegar í sviðsetningu sveitunga.

 

Svo var að sjá að nemendur hafi notið þess að fylgjast með glímu leikenda við túlkun á persónum sögunnar á sviðinu í Brautartungu. Höfðu sumir nemendur t.d. á orði í samtali við blaðamann að skemmtilegt hafi verið að sjá persónur taka líf í formi „fólks í sveitinni“. Að rennsli loknu ræddu leikarar og Jakob leikstjóri við nemendur og foreldra um verkið, persónurnar, senur og þann sögulega veruleika sem sagan gerist í. Spunnust skemmtilegar umræður og mátti heyra heilt yfir að nemendum líkaði vel við það sem fyrir sjónir bar í leiknum sem og í viðkynningu við leikhúsfólk.

 

Að sögn Magneu kennara munu nemendur vinna verkefni á næstunni sem er á þá leið að hver og einn skrifar bréf til Sölku Völku. Þannig fá nemendur möguleika á að deila með söguhetjunni upplifun þeirra á ástum og örlögum hennar og annars samferðafólks Sölku í Óseyrarþorpi við Axlarfjörð svo sem eldhuganum Arnaldi Björnssyni, Steinþóri Steinssyni, Sigurlínu móðir Sölku og Angantý Bogensen. Jafnframt ætla nemendur að teikna myndir af persónum og atburðum sögunnar sem gestir munu fá tækifæri til að skoða á veggjum Brautartungu meðan sýningar á Sölku Völku standa yfir.

Skáldið á undan sinni samtíð

 

Í samtali við Skessuhorn var leikstjóri verksins, Jakob S. Jónsson, fullur tilhlökkunar fyrir verkinu svo og ánægju yfir því að fá tækifæri til að taka þátt í uppsetningu á Sölku Völku. Að hans mati skín það í gegn í verkinu hve Laxness hafi verið „langt á undan sinni samtíð í bókinni“. Persónur á borð við Sölku Völku sjálfa, baráttukonuna með sterku réttlætiskenndina, er til marks um að nýir tónar eru slegnir hvað stéttabaráttu og kvenfrelsi áhrærir á Íslandi. Þá megi greina í persónu Arnaldar Björnssonar framfaraþrá og „hugmyndir hins nýja borgarsamfélags,“ en þó undir formerkjum sósíalismans. Um leið og þeir þjóðfélagslegu hugmyndastraumar sem einkenndu íslenskan tíðaranda á fyrri hluta 20. aldar brjótast fram á sjónarsviðið í leikverkinu er Salka Valka líka saga fátæks fólks í efnahagslegum og tilfinningalegum öngstrætum. Tekur örvænting persónanna á sig ýmsar myndir í verkinu t.d. svo augljóslega í örlögum Sigurlínu, móður Sölku, eða hinum drykkfellda Steinþóri Steinssyni. Er hægt að finna samúðarfleti með þessum persónum öllum þar sem þau reyna að draga fram líf sitt í íslensku samfélagi á róttæku umbreytingarskeiði frá landbúnaðarsamfélagi til nútíma iðnaðarþjóðfélags.

 

Einvalalið

Það er einvala lið ungmennafélaga er skipar helstu hlutverk verksins sem byggt er á leikgerð þeirra Stefáns Baldurssonar og Þorsteins Gunnarssonar frá 1982, þó með lítilsháttar aðlögun Jakobs leikstjóra að leikhópi og aðstæðum í Brautartungu. Með hlutverk Sölku Völku fara þær Lára Lárusdóttir, sem leikur Sölku unga, og Birta Sigurðardóttir er leikur Sölku fullorðna. Arnaldur Björnsson er að sama skapi túlkaður af tveimur leikurum, þeim Loga Sigurðssyni, sem leikur Arnald ungan og Sigurði Hannesi Sigurðssyni sem leikur Arnald fullorðinn. Loks er Angantýr Bogensen leikinn af Mána Sigurðssyni og Ólafi Þór Jónssyni. Hildur Jósteinsdóttir fer loks með hlutverk Sigurlínu og Árni Ingvarsson leikur Steinþór Steinsson. Í ofanálag koma fjölmargir aðrir að sýningunni í leik, í flutningi á lifandi tónlist og umsýslu ýmiskonar. Mikið líf er því framundan í leikhússlífi Lundarreykjadals á næstunni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is