Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. desember. 2011 06:45

Víða óánægja með snjómokstur í dreifbýli

Skessuhorni hafa borist fregnir af því að á Vesturlandi sé snjómokstri víða ábótavant. Edda Björk Hauksdóttir bóndi að Leirulækjarseli á Mýrum í Borgarbyggð segir íbúa í sveitinni nánast innilokaða vegna þessa. „Hér er fólk sem þarf að komast í vinnu og börn sem þurfa að komast í skóla. Dýralæknirinn ætlaði aldrei að komast heim að bæ í vikunni og þá festist mjólkurbíllinn einnig í snjó. Ég hef verið í sambandi bæði við sveitarfélagið og Vegagerðina í þessu máli en hver bendir á annan. Þegar ég fékk loksins bíl í snjómokstur um sveitina þá var aðeins rutt heim til mín, en sveitirnar hér fyrir neðan skildar eftir. Þetta er óviðunandi því þar býr einnig fólk sem þarf að komast leiðar sinnar,“ segir Edda Björk.

 

 

 

 

Undantekningartilfelli

Borgarbyggð sér um mokstur heim að bæjum í dreifbýli sveitarfélagsins, en ekkert er hins vegar gert fyrr en starfsmönnum hefur borist beiðni frá húsráðendum. Vegagerðin sér síðan um mokstur á vegum sem eru bundnir slitlagi. Á fáförnum malarvegum gildir hins vegar svokölluð helmingamokstursregla. Sveitarfélagið Borgarbyggð greiðir þannig helming kostnaðar við snjómokstur á móti Vegagerðinni sem sér um moksturinn. Beiðnin um mokstur verður þó að fara í gegnum sveitarfélagið.

Jökull Helgason forstöðumaður framkvæmdasviðs Borgarbyggðar segir að í þessu tiltekna máli, sem Edda Björk í Leirulækjarseli bendir á, hafi verið um misskilning að ræða. Málið hafi verið skoðað með Vegagerðinni og kom þá í ljós að eingöngu hefði verið mokaður helmingurinn af þeirri leið sem beðið var um. Hinn helmingurinn hafi síðan verið ruddur í kjölfarið. „Þetta er undantekningartilfelli. Þegar við fáum ábendingar um mokstur náum við yfirleitt að sinna honum samdægurs. Þetta snýst einnig um skipulagningu hjá Vegagerðinni sem býr við ákveðinn tækjakost og kemst ekki alltaf yfir allt svæðið. Borgarbyggð er víðfeðmt og stórt sveitarfélag og hér eru allir að gera sitt besta. Ég hef stundum sagt í gríni að í sveitarfélaginu séu um fjögur þúsund snjómoksturssérfræðingar. Það er alltaf gott að fá ábendingar og við reynum að bregðast skjótt við.“

 

Takmarkað fjármagn

Gagnrýnin hefur einkum snúið að því að biðja þurfi um snjómokstur á talsvert fjölförnum malarvegum. Af hverju eru ekki allir vegir ruddir? „Einfaldlega vegna þess að kostnaðurinn yrði gífurlegur,“ svarar Jökull. „Fjármagn til snjómoksturs er mjög takmarkað og eins og staðan er í dag erum við komin langt fram úr þeirri fjárheimild sem við fengum. Við látum þetta þó ekki stjórna þjónustustiginu.“

Valgeir Ingólfsson yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Borgarnesi tekur í sama streng. „Við fáum ákveðna upphæð í snjómoksturinn og er gert að halda kostnaði innan marka. Þá hefur heldur ekki snjóað að neinu ráði á þessu svæði í nokkur ár. Tækjakostur var því ekki klár í þennan aukamokstur. Nú höfum við hins vegar bætt við tækjum, til dæmis dráttarvélum með tennur, og ráðið fleiri verktaka í vinnu,“ sagði Valgeir í samtali við Skessuhorn.

Edda Björk talar hins vegar um óskilvirk vinnubrögð. „Í stað þess að leggja af stað með tvö tæki í sitthvort erindið í sömu sveitinni, af hverju er ekki sent eitt tæki sem fer hringinn um sveitina? Menn þurfa að tala saman áður en lagt er af stað með tækin og kynna sér aðstæður. Ef peningar eru af skornum skammti þá hlýtur að vera ódýrara að fara allan hringinn einu sinni, í stað þess að sinna einum afleggjara í einu með sitthvoru tækinu. Það eru svona vinnubrögð ergja mig,“ segir Edda Björk.

 

Snjómokstur í Hvalfjarðarsveit

Í Hvalfjarðarsveit hefur einnig verið allmikil umræða um snjómokstur að undanförnu. Sveitarfélagið hefur séð um snjómokstur í þéttbýli, en það þéttbýli sem skilgreint er í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar er; Melahverfið og Krosslandshverfið. Að auki eru götur sem tilheyra sveitarfélaginu mokaðar og snjór hreinsaður við leik- og grunnskóla. Í kjölfar umræðunnar samþykkti sveitarstjórn hins vegar í vikunni að láta einnig moka heim á þá bæi þar sem þess er þörf, húsráðendum að kostnaðarlausu, og skal farið í þetta eins fljótt og hægt er, að því er fram kemur á vefsíðu Hvalfjarðarsveitar. Heimild þessi gildir í eitt skipti fyrir hvern þann afleggjara fram að næsta fundi sveitarstjórnar, sem haldinn verður þriðjudaginn 13. desember næstkomandi, og þurfa húsráðendur að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins til að fá mokað heim til sín.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is