26. janúar. 2012 09:32
Vonskuveður er enn á Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðurlandi og lítið ferðaveður að sögn starfsmanna Vegagerðarinnar. Í öðrum landshlutum er verið að kanna ástand og hreinsa vegi. Á Vesturlandi verður áfram allhvass vindur með skafrenningi fram á morguninn, en lagast síðan smám saman þegar líður á daginn. Vegfarendur eru engu að síður beðnir að hafa í huga að víða er ekki mokstur eða önnur þjónusta á vegum, á kvöldin og yfir nóttina. Þá eru sumir vegir ekki í þjónustu nema fáa daga í viku. Upplýsingar um þjónustutíma eru á vef Vegagerðarinnar og í síma 1777.