Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. febrúar. 2012 01:45

Snæfell vann Þór eftir framlengingu

Lið Snæfells vann þýðingarmikinn sigur á heimavelli gærkvöldi er liðið mætti Þór frá Þorlákshöfn í Iceland Express deildinni í körfubolta. Fyrir leikinn höfðu Þórsarar tveggja stiga forskot á Hólmara í fimmta sæti deildarinnar, forskot sem nú er uppurið í kjölfar úrslita gærkvöldsins. Snæfell vermir því fimmta sætið nú með 16. stig.

 

Þórsarar hófu leikinn af fullum krafti gegn andlausum Hólmurum og var staðan 2-15 um miðbik leikhlutans. Ingi Þór Steinþórsson tók leikhlé á þessum tímapunkti sem gaf góða raun því Snæfellingar girtu sig í brók að því loknu og náðu að minnka muninn. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 15-20 fyrir Þórsara. 

 

 

Í öðrum leikhluta uxu Hólmurum ásmegin. Náðu þeir forystu í upphafi leikhlutans og áður en langt um leið sigu þeir fram úr gestunum undir forystu Marquis Sheldon Hall og Jóns Ólafs Jónssonar. Var forystan 30-22 þegar mest lét. Þórsarar svöruðu þó á móti undir lok leikhlutans og var staðan 39-37 í hálfleik, Snæfell í vil.

 

Snæfellingar héldu forystu sinni í þriðja leikhluta og voru að jafnaði yfir með 6-8 stigum. Héldu þeir þar með Sunnlendingum í seilingafjarlægð og höfðu að endingu sex stiga forskot að loknum leikhlutanum, 58-52.

 

Spennan var í algleymingi í lokaleikhlutanum. Þórsarar hófu leikhlutann með áhlaupi á heimamenn sem leiddi til fjögurra stiga forystu eftir um fimm mínútna leik. Hólmarar jöfnuðu metin og skiptust liðin á forystunni fram í blálokin. Fór svo að Þórsarar leiddu með tveimur stigum. 74-76, þegar sjö sekúndur lifðu af leiknum. Þá áttu gestirnir víti sem þeir klikkuðu úr og voru handtök Snæfellinga hröð því áður en flautan gall náði Marquis Sheldon Hall að jafna metin og framlengja leikinn við mikinn fögnuðu heimamanna.

 

Framlengingin var liði Snæfells auðveld viðfangs og náði það þægilegri forystu fljótt sem það hélt til leiksloka. Munaði sérstaklega um góða vítanýtingu Hólmara í framlengingunni. Loktölur urðu 93-86

 

Stigahæstur í liði Snæfells var Marquis Sheldon Hall með 24 stig. Á eftir honum kom Pálmi Freyr Sigurgeirsson með 15 stig, Jón Ólafur Jónsson með 13, Hafþór Ingi Gunnarsson 12, Ólafur Torfason 10, Quincy Hankins-Cole 10 og 15 fráköst og loks Sveinn Davíðsson með 9 stig.

 

Næsti leikur Hólmara verður gegn liði ÍR og fer leikurinn fram í Stykkishólmi fimmtudagskvöldið 9. febrúar kl. 19:15. 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is