13. febrúar. 2012 11:04
Í síðasta tölublaði Skessuhorns ritaði Árni Múli Jónasson bæjarstjóri á Akranesi grein um ástand og framtíð kútters Sigurfara sem varðveittur er á Byggðasafninu á Görðum. Í greininni taldi Árni Múli að tími ákvarðanna sé kominn varðandi framtíð skipsins. Standi valið milli þess að hefja framkvæmdir á þessu ári sem miði að því að koma kútter Sigurfara í skjól eða að hluta skipið í sundur og fjarlægja af safnasvæðinu. Vísar Árni Múli í niðurstöðu starfshóps sem skipaður var árið 2010 um framtíð kúttersins en hópurinn lagði til að byggt verði yfir það. Þá mætti taka langan tíma að vinna að endurbótum hans og nánast að smíða nýtt skip. Eins og sakir standa, og raunar mjög fljótlega, verður skipið orðið ónýtt, eða í það minnsta svo illa farið að hætta getur skapast af honum fyrir börn og fullorðna.