21. febrúar. 2012 02:50
Landsbankinn stendur fyrir opnum fundi í Snæfellsbæ í kvöld um endurreisn atvinnulífs og fjölgun starfa í landinu. Möguleikar í nýsköpun verða sérstak umfjöllunarefni í fundarröðinni. Fundurinn hefst kl. 20.00 og er haldinn í Félagsheimilinu á Klifi, Ólafsvík. Er þetta fyrsti fundur af átta sem Landsbankinn efnir til á næstunni víðsvegar um landið. Segir ennfremur í fréttatilkynningu frá bankanum að fundarröðin sé liður í stefnu Landsbankans að vera hreyfiafl í samfélaginu svo og að vera opinn vettvangur samræðu milli stjórnenda bankans og landsmanna um hvernig bankinn geti bætt þjónustu sína. Frummælendur verða þau Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans, Eggert Classen frá Frumtaki og Aðalbjörg Þorsteinsdóttir stofnandi Villimeyjar.
Þess má geta að Landsbankinn efndi til opinna funda á níu stöðum um land allt á síðasta ári sem um 800 manns sóttu. Að auki átti bankinn fundi í 25 sveitarfélögum með sveitarstjórnarmönnum, atvinnuþróunarfélögum og fleirum til að leita uppi góðar hugmyndir sem bankinn gæti liðsinnt.
Fundarröðin sem nú hefst er framhald þessar funda og þeirrar stefnumótunar Landsbankans að vera hreyfiafl í samfélaginu og ýta undir endurreisn atvinnulífs og fjölgun starfa í landinu, jafnt í þéttbýli og dreifbýli.