Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. mars. 2012 06:22

Brúðuheimum í Borgarnesi hefur verið lokað

„Kæru velunnarar, nágrannar, vinir, samherjar og aðrir sveitungar!  Okkur þykir óendanlega leitt að þurfa að tilkynna um endanlega lokun Brúðuheima í Borgarnesi. Starfsemi Brúðuheima hefur nú þegar verið hætt í Englendingavík,“ segir í tilkynningu sem hjónin Bernd Ogrodnik og Hildur M Jónsdóttir sendu Skessuhorni. Þar tilgreina þau ástæður fyrir ákvörðun sinni. „Ástæða þess að við sjáum okkur knúin til þess að hætta starfsemi okkar í Borgarnesi er margvíslegur forsendubrestur sem orðið hefur vegna erfiðs efnahagsástands þjóðarinnar. Má þar nefna að ekki hafa komið til opinberir styrkir sem reiknað var með bæði í uppbyggingu og rekstur miðstöðvarinnar sem ráðamenn höfðu ýmist gefið fyrirheit um eða bent á fordæmi og færar leiðir að stuðningi, minnkandi ferðalög Íslendinga vegna hækkunar bensínverðs og almennt erfiðari rekstrarskilyrði vegna hækkunar á flestum þáttum rekstrar án þess að fólk hafi fleiri krónur í veskjunum.“

Í tilkynningu þeirra hjóna segir að þótt Brúðuheimar loki í Borgarnesi þá muni starfsemin ekki stöðvast. Hafa þau gengið frá samningi við Þjóðleikhúsið og verða sýningar þeirra framvegis þar. „Fyrst ber að nefna að sýningin Gamli maðurinn og hafið sem áætlað var að frumsýna í leikhúsi Brúðuheima á vormánuðum, verður þess í stað frumsýnd á Listahátíð í Reykjavík í samstarfi við Þjóðleikhúsið 20. maí næstkomandi. Í haust flyst Gilitrutt sjálf í höfuðborgina þar sem hún mun trampa um á sviði Þjóðleikhússins, vonandi til ánægju fyrir fjölda fólks eins og hún hefur gert í leikhúsi Brúðuheima fyrir mikinn fjölda gesta og Aladín mun væntanlega fljúga á sínu töfrateppi yfir sviðinu á vormánuðum 2013.“

 

Bernd og Hildur segja sárt að kveðja eftir svo skamma viðveru í Borgarnesi og vilja þakka þann mikla stuðning og velvilja sem þeim hafi verið sýndur. „Við óskum þess innilega að fallegu húsin í Englendingavík fái nýtt og sæmandi hlutverk sem mun færa samfélaginu áframhaldandi jákvæða ímynd og gleði. Sérstakar þakkir færum við Hollvinasamtökum Englendingavíkur sem unnu að því að bjarga þessum miklu verðmætum og vonandi geta þau haft hönd í bagga með að finna húsunum nýtt hlutverk svo þau muni ekki grotna aftur niður.“

 

Hildur og Bernd segjast sjá sig nauðug til að leggja land undir fót og munu verja næstu misserum í ferðum milli Kanada og Íslands. „Fyrir utan starfsemi okkar í Englendingavík hefur önnur starfsemi einnig dregist mikið saman hér á landi vegna erfiðs efnahagsástands og munum við hverfa til Vesturheims, en Bernd hefur sýnt þar í landi í ein 15 ár við góðan orðstír. Við munum hins vegar koma til Íslands tvisvar til þrisvar á ári til að sýna og verður framtíðin að leiða í ljós hvort okkur verður fært að flytja aftur heim innan nokkurra ára ef bjartsýni og jákvæðni fer að vinna á í samfélagi okkar. Enn á ný þökkum við fyrir frábæran tíma hér í Borgarnesi, hér höfum við eignast mikið af góðum vinum og átt samleið með mörgu góðu fólki og kveðjum við með trega í hjarta en vongóð um bjarta og ánægjulega framtíð,“ segja Hildur og Bernd að endingu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is