Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. mars. 2012 04:10

Ótrúleg saga úr Borgarfirði

Revían „Ekki trúa öllu sem þú heyrir,“ var frumsýnd í Logalandi í Reykholtsdal sl. föstudagskvöld. Þar má sjá Borgarfjarðarhérað út frá margbrotnu sjónarhorni spaugskáldsins Bjartmars Hannessonar bónda á Norður-Reykjum í Hálsasveit. Bjartmar semur allan texta og tvö af lögum verksins, sem nær alla leið frá 10. öld og fram til nútímans. Egill Skallagrímsson sjálfur (Þorbjörn Oddsson) er kominn á vettvang og kynnir áhorfendum sögusviðið: Borgarfjörður, landnám Skallagríms árið 2012.  Ýmsum kunnuglegum persónum bregður fyrir og léttleikinn er alltaf til staðar þótt líka sé fast skotið. Embættismenn héraðsins hitta kynlega kvisti um leið og þeir gera sitt besta til að sinna störfum sínum. Bændur eru sumir erfiðir og láta illa að stjórn. Sveitarstjórnin er sundurleit og þar eiga menn erfitt með að yfirgefa pólitíska stóla til að fjalla óhlutbundið um dagfarsleg málefni. 

Páll Skagfjörð Brynjarsson sveitarstjóri (Þorvaldur Jónsson) reynir sem hann getur til að gera gott úr málum. Sparnaðurinn ræður ríkjum og ekki er dregin fjöður yfir hvers vegna sú staða er komin upp. Háskólar héraðsins fá sinn skammt af léttri gagnrýni og ekki er hægt að segja að viðhorfið til nýrra íbúa sé til mikillar fyrirmyndar. Spillingin og eiginhagsmunastefnan ráða hér ríkjum alveg eins og annars staðar og allt er það er sýnt með spaugsins formerkjum.

 

Persónuflóran er fjölbreytt og trúfastlega smíðuð úr samfélagi héraðsins. Má þar nefna leiðindasegginn Einar Kúld, sem vakti mikla lukku sýningargesta sem áttuðu sig seint á hver túlkaði. Bændurnir Sveinbjörn og Kolgríma (Guðmundur Pétursson og Katrín Eiðsdóttir) hófu verkið með baráttu sinni við ytri aðstæður. Í persónu Ísleifs Jónsen (Pétur Pétursson) voru margir kunnuglegir pensildrættir og Theodór yfirlögregluþjónn (Narfi Jónsson) var alltaf nálægur ásamt Laufeyju lögreglukonu (Bjarnfríður Magnúsdóttir). Persóna hins erlenda Múhameðs (Hafsteinn Þórisson) var litrík og framandi og skreytti verkið. Guðmundur húsvörður (Jón Pétursson) var skemmtilega ráðþrota og þroskasaga Jófríðar í meðförum Þóru Geirlaugar Bjartmarsdóttur var frábær þráður í verkinu og gaf því góðan endasprett. Ýmis létt og skemmtileg lög settu tilheyrandi blæ á þetta revíukvöld. Gaman var að sjá ungu kynslóðina taka þátt í uppfærslunni.

 

Það er öllum hollt að upplifa vel samin gamanmál. Að þessu sinni er það mannlífið í Borgarfirði sem er til skoðunar. Kannski eru skilaboð höfundarins að samstaða sé betri en sundurleitni? Undirrituð þakkar Ungmennafélagi Reykdæla frábæra skemmtun og óþreytandi elju við að færa upp leikverk í héraði, áhorfendum til ánægju, fróðleiks - og sjálfsskoðunar.

 

Guðrún Jónsdóttir.

 

Önnur sýning á revíunni er í kvöld, sunnudag, þriðja sýning fimmtudagskvöld og fjórða sýning laugardaginn 10. mars. Allar sýningar hefjast klukkan 20:30. Nauðsynlegt er að panta miða í síma 865-4227.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is