05. mars. 2012 09:00
Íslandsmeistaramót fullorðinna í kata var haldið sl. laugardag í íþróttahúsi Hagaskóla. Mjög góð þátttaka var á mótinu, um 30 einstaklingar og 13 hópkatalið. Mikil spenna var fyrir keppni í hópkata þar sem margir fyrrum Íslandsmeistarar voru mættir til leiks. Í karlaflokki átti lið Breiðabliks titil að verja og fór svo að þeir Birkir Indriðason, Davíð Freyr Guðjónsson og Heiðar Benediktsson vörðu titil sinn og urðir Íslandsmeistarar í hópkata karla annað árið í röð, eftir að hafa lagt lið Þórshamars. Í hópkata kvenna var ljóst að nýtt lið myndi verða Íslandsmeistara þar sem lið Akraness, sem vann í fyrra, var ekki eins skipað. Í úrslitum mættust lið Breiðabliks og lið Akraness, en lið Breiðabliks með þær Aðalheiði Rósu Harðardóttur fyrrum félaga í ÍA, Kristínu Magnúsdóttur og Svönu Kötlu Þorsteinsdóttur stóðu uppi sem sigurvegarar eftir að hafa lagt lið Akraness sem skipað var þeim Eydísi Líndal, Valgerði E. Jóhannsdóttur og Hafdísi E. Helgadóttir.
Í kata kvenna mættust í úrslitum sömu keppendur og í fyrra, liðsfélagarnir úr Breiðabliki, þær Aðalheiður Rósa Harðardóttir og Svana Katla Þorsteinsdóttir. Aðalheiður átti titil að verja og eftir spennandi úrslitarviðureign stóð hún uppi sem sigurvegari og hampaði því tvöföldum meistaratitli.
Eftir harða baráttu í undanúrslitum þá voru það Kristján Helgi Carrasco úr Víkingi og Davíð Freyr Guðjónsson úr Breiðablik sem áttust við í úrslitum, en Davíð Freyr hafði þá áður unnið lærimeistara sinn og fyrrum Íslandsmeistara; Magnús Eyjólfsson. Kristján Helgi Carrasco stóð uppi sem sigurvegari og varð Íslandsmeistari karla í kata. Gaman er að geta þess að Kristján Helgi, líkt og Aðalheiður Rósa, á mjög sterka tengingu á Akranes, þaðan sem hann er ættaður.