Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. mars. 2012 06:01

Fyrsta pílagrímagangan í Borgarfirði á sunnudaginn

Á síðasta ári fór séra Elínborg Sturludóttir sóknarprestur í Stafholti í Borgarfirði af stað með verkefni, ásamt sr. Flóka Kristinssyni á Hvanneyri og sr Geir Waage í Reykholi, sem nefndist pílagrímagöngur. Göngur sem þessar eiga sér aldagamla hefð víða um heim og byggjast á að farið er í skipulagðar gönguferðir að fyrirfram ákveðnum stöðum og eru kirkjur eða kirkjustaðir yfirleitt takmarkið. Þannig var í fyrra gengið frá Stafholti, milli kirkna í Borgarfirði og þaðan sem leið lá austur í Skálholt. Endað var á Skálholtshátíð sem haldin var á Þorláksmessu að sumri. Göngurnar slógu í gegn og urðu sífellt fjölmennari eftir því sem leið á vorið og sumarið. En pílagrímagöngur eru ekkert séríslenskt fyrirbrigði. Elínborg segir að í janúar síðastliðnum hafi hún sótt fjölmenna ráðstefnu í Árósum í Danmörku um pílagrímagöngur, en þær eru orðnar afar vinsæl nýbreytni í kirkjustarfi á Norðurlöndunum. Nánast megi tala um hreyfingu í þessa veru. „Fólk er til dæmis að ganga gamlar götur á Norðurlöndum og setja margir stefnuna á Þrándheim í Noregi þar sem Ólafur Helgi Noregskonungur er grafinn,“ segir Elínborg.

Fleiri bætast í hópinn

Næsta sumar munu fleiri sóknarprestar í Borgarfirði ganga til liðs við Elínborgu í þessu verkefni. „Fyrsta ganga ársins verður sunnudaginn 11. mars en þá verður gengið frá kapellunni í Húsafelli og að Stóra Ási í Hálsasveit. Svo eru ýmsar aðrir leiðir sem stefnt verður á að ganga í vor og sumar, alls á 13 dögum. Hægt er að sjá dagskrá göngunnar inn á vefsíðunni www.pilagrimar.is  „Fleiri prestaköll eru nú að bætast við en þeir prestar sem taka þátt auk mín verða sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, sr. Kristinn Jens Sigurþórsson, sr. Geir Waage og sr. Flóki Kristinsson. Allir eru þeir líkt og ég prestar í Borgarfirði. Reynslan frá síðasta ári var það góð að þeir hafa allir lýst sig reiðubúna að taka þátt í verkefninu og hvetja sóknarbörn til þátttöku.“

 

Gengið allt frá miðöldum

Elínborg segir djúpa hefð liggja að baki pílagrímagöngum. Þannig séu þúsundir sem gangi til Santiago de Compostela, leiðina sem Thor Vilhjálmsson gekk fyrir ekki svo mörgum árum og margir þekkja úr sjónvarpsmynd sem gerð var af því tilefni. „Þá er genginn Jakobsvegur yfir Pyreneafjöllin, alls um 800 kílómetrar. Á miðöldum fóru margir Íslendingar í pílagrímaferðir. Guðríður Þorbjarnardóttir og Sturla Sighvatsson fóru til Rómar og margt sem bendir til að Sturla hafi einmitt gengið Jakobsveginn. Það liggja gönguleiðir um alla Evrópu til Rómar og Santiago. Menn eru nú að fá nýjan áhuga á þessum gömlu pílagrímaleiðum. Hér heima beina menn hins vegar sjónum að fornum höfuðbólum og kirkjustöðum. Við förum heim að Hólum eða heim í Skálholt, svo dæmi séu tekin,“ segir Elínborg.

 

Að finna sjálfan sig

Svo virðist því sem trúartengdar göngur af þessu tagi séu verulega að ryðja sér til rúms. En af hverju að sameinast í göngu með þessum hætti? „Fólk sameinar það að ganga fyrir sjálft sig og ganga um leið til Guðs. Margir glíma við tilvistarspurningar og vilja dýpka trúarlega reynslu sína með þessum hætti. Það er sameiginleg reynsla fólks að það er eitthvað sérstakt sem gerist á leiðinni. Gangan gefur fólki þannig gríðarlega mikið og jafnvel breytir lífi þess. Auðvitað eru svona gönguferðir gömul aðferð til að hlúa að trúnni og nú kemur í ljós að þetta virðist henta nútímamanninum einkar vel, t.d. þeim sem sitja kyrrir allan daginn við vinnu sína. Hvað trúna varðar þá opnar gangan betur hug og hjarta til að tengjast almættinu. Vakning um pílagrímagöngur er kannski svona mikil af því við erum að feta í fótspor kynslóðanna sem gengu til kirkju. Við fetum gamlar slóðir og leitum þannig róta okkar þegar við fetum í fótspor forfeðranna og það gefur okkur aðra vídd. Allir þurfa á andlegum styrk að halda. Þurfa að vita á hvaða leið þeir eru og hvert þeir stefna. Margir glíma þannig við erfiðar spurningar. Það hefur t.d. komið vel í ljós síðustu misserin að velsæld og veraldleg gæði er ekki trygging fyrir hamingju. Maðurinn þarf á einhverri dýpri merkingu að halda. Pílagrímagöngurnar eru því ákveðin tilraun til að ganga til Guðs, en samt líka að upplifa landið í leiðinni og njóta útivistar,“ segir Elínborg.

 

Hún segir að í fyrra hafi verið mjög gaman í pílagrímagöngunum í Borgarfirði og þá hafi maður gengið undir manns hönd að láta allt ganga upp og vel hafi verið tekið á móti göngufólki. „Staðkunnugir á hverjum stað leiddu göngufólk bestu leiðirnar. Reynum að hafa vit á því að leita til fólksins sem þekkir hvar gömlu göturnar liggja og forfeðurnir gengu,“ segir Elínborg að lokum.

 

Við ítrekum að endingu að dagskrá pílagrímagöngunnar í sumar má sjá á: www.pilagrimar.is  

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is