Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. mars. 2012 01:01

Heimspeki kvenna til umræðu í Snorrastofu

Næsti fyrirlestur í fyrirlestraröð Snorrastofu verður á morgun, þriðjudaginn 20. mars. Hann fellur vel að málefnum jafnréttis og kvenfrelsis, sem lita líðandi stund, ekki hvað síst nú í marsmánuði. Það er ungur heimspekingur úr héraðinu, Þóra Björg Sigurðardóttir frá Hellum í Bæjarsveit, sem flytur fyrirlesturin „Besta leikkona í aukahlutverki. Að flétta heimspeki kvenna saman við hefðbundna túlkun á heimspekisögunni“. Þóra Björg lauk  BA-prófi í heimspeki og kynjafræði frá Háskóla Íslands 2005 og síðan MA-prófi í heimspeki við sama háskóla 2008 með viðkomu í kvennafræðideild Rosi Braidotti í Háskólanum í Utrecht í Hollandi. Hún lauk síðan MA-prófi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá íslenskudeild síðastliðinn október og lauk starfsnámi sínu í þeim fræðum hjá Snorrastofu í Reykholti.

 

 

 

Kanóna heimspekinnar hefur verið gagnrýnd af femínískum heimspekingum fyrir að halda kvenheimspekingum fyrir utan ritsafn, og þar með vitund, heimspekinema og heimspekinga almennt, þrátt fyrir að þær hafi lagt stund á heimspeki, gefið út rit og tekið þátt í heimspekilegum rökræðum á ólíkum tímum í sögu heimspekinnar.

 

Í fyrirlestrinum verður farið yfir aðferðir til að hreyfa við ríkjandi viðmiðum heimspekinnar, um hvaða höfundar eru lesnir og hverjir ekki, og skýrt frá tilraun sem gerð var í hefðbundnu inngangsnámskeiði í Nýaldarheimspeki við Háskóla Íslands. Tilraunin fólst í því að flétta verk þriggja kvenheimspekinga saman við hefðbundna túlkun á heimspekisögunni. Kvenheimspekingarnir sem urðu fyrir valinu voru þær Elísabet af Bæheimi (1618–1680), Mary Astell (1666-1731) og Damaris Masham (1659-1708). Sýnt verður fram á hvað þessar konur lögðu til verka sígildra karlheimspekinga í mikilvægum heimspekilegum málefnum; fjallað um heimspeki sérstaklega út frá sjónarhorni kvenna, stöðu kvenna og kvenréttindabaráttunni; skoðað hvort og hvaða erindi heimspeki þeirra á við heimspekisöguna og lagt var mat á aðferðina sjálfa, þ.e. að flétta heimspeki kvenna saman við hefðbundnar túlkanir á heimspekisögunni.

 

Það er sérstakt gleðiefni Snorrastofu að kynna til leiks ungt fólk úr héraðinu, sem tekist hefur á við fræðin. Þóra Björg er önnur í röðinni þennan veturinn á eftir Heiðari Lind Hanssyni, sem áður fjallaði í Snorrastofu um Hernámsárin í Borgarfirði. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:30, hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Kaffiveitingar verða í boði Snorrastofu. Að fyrirlestri loknum verður að vanda boðið til umræðna um hann.

-fréttatilkynning

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is