Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. mars. 2012 11:01

Skallagrímur og ÍA leika um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta

Það er óhætt að segja að hart verði barist þegar lið Skallagríms og ÍA eigast við í síðari umferð úrslitakeppni 1. deildar í körfubolta. Bæði lið unnu andstæðinga sína 2-0 í fyrri umferðinni. Borgnesingar lögðu lið Hattar frá Egilsstöðum og Skagamenn lið Hamars frá Hveragerði. Í síðari umferðinni munu liðin mætast að minnsta kosti tvisvar, fyrst í Borgarnesi á föstudaginn og síðan á Akranesi á sunnudaginn. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki sigrar viðureignina. Ef með þarf mun þriðji leikur liðanna, eða oddaleikurinn, fara fram í Borgarnesi þriðjudaginn 27. mars. Sannkölluð körfuboltaveisla er því framundan. Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15 og er ekki úr vegi að minna áhangendur liðanna á að mæta tímanlega til að ná sætum.

Mikið undir

Þetta er í fyrsta skipti sem liðin mætast í úrslitakeppni á Íslandsmóti svo vitað sé. Skallagrímsmenn sigruðu í báðum leikjum liðanna í deildarkeppninni í vetur sem þóttu jafnir og spennandi. Borgarnesleikurinn fór 82-76 á meðan leikurinn á Akranesi fór 90-97. Alls hafa liðin mæst 28 sinnum samkvæmt upplýsingum af vef KKÍ síðan 1987. Borgnesingar hafa sigrað í 21 leik á meðan Skagamenn hafa sigrað í sjö leikjum. Lið ÍA þarf að vinna að minnsta kosti einn leik í Borgarnesi til að sigra í rimmunni. Á þessum árum hafa Skagamenn einungis sigrað tvisvar í Borgarnesi en það var síðast 31. október 1996. Þá léku með liði Skagamanna Dagur Þórisson, sem enn er í leikmannahópi liðsins, og Sigurður Elvar Þórólfsson sem nú er aðstoðarþjálfari liðsins. Ærið tilefni er því fyrir Skagamenn að rétta sinn hlut sögulega séð í viðureigninni við Skallagrímsmenn. Að sama skapi vilja Borgnesingar vafalaust viðhalda hefðinni sem þeir hafa markað hingað til. Jafnframt er heiður liðanna í húfi þar sem um grannaslag er að ræða. Næg eru þess vegna tilefnin fyrir bæði lið að sigra.

 

„Þetta verður æsispennandi“

Skessuhorn ræddi við tvo reynslubolta í körfunni á Vesturlandi sem léku á árum áður með báðum liðum og fékk þá til að spá í spilin. Þetta eru bræðurnir Garðar og Gunnar Jónssynir.  Garðar hefur leikið og þjálfað bæði lið en hann lék lengstum með ÍA alveg þangað til að liðið tryggði sér síðast sæti í úrvalsdeild vorið 1993. Að sögn Garðars þá verður rimma liðanna klárlega æsispennandi. „Það er frábær staðreynd að liðin eru að fara að mætast að þessu sinni. Skagamenn hafa komið verulega á óvart í vetur en eina markmið liðsins var að halda sér uppi í 1. deild. Núna eru strákarnir að spila um sæti í úrvalsdeild sem er frábært,“ segir Garðar. Hann spáir því að það þurfi oddaleik til að knýja fram úrslit. „Ég spái að Skagamenn sigri fyrsta leikinn í Borgarnesi á föstudaginn naumlega 85-91. Skallagrímsmenn ná svo að jafna metin á Akranesi á sunnudaginn og fer sá leikur 78-89. Þriðji leikurinn endar svo í framlengingu en satt best að segja treysti ég mér ekki að spá fyrir um úrslitin þá. Það verður svakalegur leikur,“ bætir Garðar loks við spenntur í bragði. Gunnar, sem lék með Skallagrími, telur hins vegar að Borgnesingar muni vinna Skagamenn örugglega og þurfi einungis tvo leiki til. „Samkvæmt hávísindalegum aðferðum mínum munu Skallagrímsmenn vinna á föstudaginn með heilum 28 stigum, 100-72. Það verður húsfyllir og mikil stemning. Borgnesingar munu svo klára viðureignina á sunnudaginn með 13 stiga sigri, 76-89,“ segir Gunnar fullviss um sinn spádóm að lokum. Nú kemur svo í ljós hversu getspakir bræður verða, en full ástæða til að hvetja stuðningsmenn liðanna til að mæta.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is