22. mars. 2012 09:12
Í kjölfar fréttaflutnings í gær af slysi sem varð um borð í togara á Ísafjarðardjúpi, sem endaði með andláti ungs skipverja, skrifa skipverjar á Helgu Maríu AK ábendingu til íslenskra netblaðamanna og minna á siðareglur Blaðamannafélagsins. „Þriðja grein þeirra reglna var gróflega brotin,“ segja þeir. Í siðareglum blaðamanna segir í þriðju grein: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“ Þá segja skipverjar Helgu Maríu: „Er ekki komið nóg af óþarfa æsifréttamennsku á Íslandi í dag? Tilfinningar fólks og andlát ástvina eru ekki æsifréttir.“
Yfirlýsing svipaðs eðlist barst einnig í gær frá Vilhjálmi Sigurðssyni skipstjóra Sigurbjargar ÓF, þar sem hinn hörmulegi atburður átti sér stað í gærmorgun. „Í framhaldi af þessu hræðilega slysi sem varð um borð í skipi mínu í morgun, vildi ég óska að fjölmiðlar þessa lands temdu sér vandaðri vinnubrögð, eins Landhelgisgæsla Íslands, að vera ekki með beina útsendingu af slysstað. Það þarf að gefa viðkomandi aðilum séns á að hafa samband við aðstandendur sem tekur þó nokkurn tíma, ekki gott að þurfa að vera í kapphlaupi við fjölmiðla.“