Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
30. apríl. 2012 06:22

Spilað á litróf tilfinningaskalans hjá áhorfendum

Það var líf og fjör í hinni sjötíu ára en síungu Bíóhöll á Akranesi síðasta laugardagskvöld. Það lá spenna í loftinu enda var framundan frumsýning á söngleiknum Blóðbræðrum, eftir breska hárskerann og revíuhöfundinn Willy Russell. Verkið var fyrst sýnt í London fyrir hartnær 30 árum og núverandi uppfærsla þess ytra er sú einstaka sýning sem sýnd hefur verið lengst í West End leikhúsinu, eða í 24 ár samfleytt. Segir það sitt um ágæti sögunnar.  Skömmu fyrir klukkan átta fylltist salurinn af leikhúsgestum á öllum aldri. Brátt kæmi í ljós hvernig afrakstur hálfs annars mánaðar vinnu nýs áhugaleikhóps á Akranesi yrði. Það eru Vinir hallarinnar sem hafa veg og vanda að uppfærslu sýningarinnar á Blóðbræðrum. Þetta er tilraun þeirra sem að Bíóhöllinni standa til að gera húsið að umgjörð nýrra sýninga, raunar fremur en að umgjörðin sé leikfélag.

Í marsmánuði var einfaldlega auglýst eftir fólki sem hefði áhuga á að koma með einhverjum hætti að uppfærslu á söngleik. Allir yrðu með, hvaða hlutverk sem þeir fengju á sviði eða utan þess. Sannur ungmennafélagsandi og raunar fetað í fótspor svo fjölmargra áhugaleikfélaga um landið sem færa upp sýningar í félagsheimilum sínum; fylla húsin lífi með þeim hætti. Slíkt hefur oft gengið best í smærri sveitarfélögum en nú er afsannað að slíkt sé skilyrði. Nú er svo sannarlega búið að færa nýtt líf inn í Bíóhöllina á Akranesi og hefur það tekist einkar vel.

 

Ísólfur Haraldsson bíóstjóri og forsprakki Vina hallarinnar fékk til liðs við sig þaulvana menn þegar kom að stjórnun uppfærslunnar. Þessir þremenningar eru vinir og vinnufélagar í Grundaskóla þar sem þeir hafa á liðnum árum samið og sett á fjalirnar með ungmennum úr elsta skólastiginu söngleiki í fremstu röð. Þeirra reynsla og þekking kom sannarlega að góðum notum. Einar Viðarsson og Gunnar Sturla Hervarsson sáu um leikstjórn og Flosi Einarsson um tónlistarstjórn og hljóðupptökur. Þeirra reynsla á vafalaust þátt í að sýningin á Blóðbræðrum var því sem næst hnökralaus, tvímælalaust fimm stjörnu sýning í röðum áhugaleikhópa. Auk framúrskarandi leiks var margt sem kryddaði sýninguna. Nefna má dansatriði sem Sandra Ómarsdóttir þjálfaði og auk þess fjölmargt annað sem vert væri að geta sérstaklega bæði tæknilegs eðlis; svo sem búningar, smink en ekki síst leikmyndin sem var frábærlega úr garði gerð. Hvert smáatriði var úthugsað.

 

Blóðbræður fjalla í örstuttu máli um tvíburabræður sem margra barna móðir elur. Fyrir átti hún hóp af börnum, þannig að hún neyðist til að gefa annan soninn frá sér, sterkefnuðu fólki. Bræðurnir alast þannig upp við ólík kjör en tilviljanir haga því til að þeir hittast á nokkurra ára fresti. Þrátt fyrir að vera ítrekað stíað í sundur liggja leiðir þeirra aftur saman. Ekki ætla ég að rekja söguþráðinn nánar, fólk verður einfaldlega að mæta í leikhúsið og sjá sjálft þetta ævintýri. Segja má að með burðarhlutverk í verkinu fari þrír leikarar. Bræðurna Mikka og Edda á öllum aldri leika þeir Fjölnir Gíslason og Kristján Darri Jóhannsson. Báðum tekst þeim afar vel að túlka strákana á ólíkum stað í æviskeiði þeirra þar sem uppeldið við ólík kjör mótar einstaklingana. En vissulega eru þeir sem sjö ára guttar þó skemmtilegastir eins og gengur með saklaus börnin áður en aðstæður í uppeldinu breyta þeim um of. Hlutverk frú Jónu, móður drengjanna, er þó stærsta hlutverkið í leikritinu og það veigamesta þar sem söngur frúarinnar spilar stórt hlutverk í frásögninni. Túlkun Rakelar Pálsdóttur á frú Jónu var að mínum dómi leiksigur þessarar uppfærslu. Söngur hennar er frábær ekki síður en túlkun á hinni æðrulausu móður barnaskarans. Trúi ég ekki öðru en þessi hæfileikaríka stúlka eigi eftir að leggja leiklist og söng fyrir sig í framtíðinni í enn ríkara mæli. Þórdís Ingibjartsdóttir og Hafdís Erla Helgadóttir fara afskaplega vel með hlutverk sín sem sögumenn bæði í bundnu máli og söng. Sýningin er sett saman úr fjölda stuttra atriða og því mikilvægt að skiptingar gangi smurt og sagan sé vel fléttuð saman sem heild. Býsna margt gerist í sýningunni og er hún löng, eða þrír tímar með hléi. Áhorfendum leiðist þó aldrei. Með hlutverk herra og frú L.Jóns, sem ala upp annan tvíburann, fara þau Aldís Birna Róbertsdóttir og Ingi Björn Róbertsson. Tekst þeim vel, hvoru á sinn hátt, að túlka hlutverk ríka fólksins og mynda þannig hina ísköldu andstæðu við fátæktina sem er hlutskipti frú Jónu og fjölskyldu hennar. Auk þessara aðalleikara eru fjölmargir aðrir sem koma við sögu, bæði í smærri hlutverkum og stærri, börn sem fullorðnir. Öllum ferst þetta afar vel úr hendi.

 

Í Blóðbræðrum er leikið á allt litróf tilfinningaskalans; mikið hlegið, einkum framan af sýningu, en ekki er laust við að víða í salnum mætti sjá tár á hvarmi leikhúsgesta þegar dramatíkin tók völdin. Þannig eiga góðar sýningar að vera. Leikfólki og öðrum sem komu að uppfærslu á Blóðbræðrum var einkar vel tekið í lok frumsýningar og klappað lof í lófa. Allir vinir hallarinnar mega vera stoltir af sínum hlut og túlkun á þessu margslungna söng,- gleði- og dramaverki sem Blóðbræður vissulega eru. Hvet ég bæjarbúa og nágranna alla til að láta ekki þessa frábæru sýningu framhjá sér fara. Hún er á engan hátt síðri en þær sýningar sem undirritaður hefur séð í meðförum atvinnufólks í stærri leikhúsum þessa lands. Til hamingju!

 

Magnús Magnússon.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Dalabyggð

Framtíð Breiðafjarðar

Framleiðnisjóður Landbúnaðarins

Fram á völlinn

Grundarfjarðarbær

Fundaröð um vegamál á Vesturlandi

Grundarfjarðarbær

Bæjarstjórnarfundur

Dalabyggð

Sveitarstjórn Dalabyggðar - 181. fundur

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is