Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. maí. 2012 12:57

Tilskipun ESB gæti þýtt 70 prósenta hækkun veggjalda fyrir fasta notendur

Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins sem snýr að jafnræði neytenda, og þrýst er á að Ísland og Noregur samþykki vegna aðildar landanna að EES samningnum, yrði óheimilt að veita meiri afslátt en 13% af veggjöldum í þessum löndum. Ef af þessum breytingum yrði myndu þær hafa gríðarleg áhrif á verð fyrir akstur bíla undir 6 metra um Hvalfjarðargöngin. Þannig myndi verð fyrir staka selda ferð lækka um 45%, en á móti kemur að afsláttarkjör stórnotenda myndu skerðast verulega. Þyrftu kaupendur veglykla með hæsta afslætti samkvæmt núverandi kjörum að taka á sig 70% verðhækkun frá því sem nú er.  

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Gylfa Þórðarsyni framkvæmdastjóra Spalar að fyrirtækið muni líklega hefja verðbreytingar í áföngum innan tíðar. Samkvæmt útreikningum Spalar myndu afsláttarkjör sem hingað til hafa verið allt að 72% verða að hámarki 13%. Í dag er verð á stakri ferð fyrir bíla undir 6 metra lengd með fullum afslætti 283 krónur en myndi hækka í 480 krónur, eða um 70%. Verð á stakri ferð samskonar bíls sem nú kostar 1.000 krónur myndi hins vegar lækka í 550 krónur, eða um 45%.

 

Á valdi íslenskra stjórnvalda

Gísli Gíslason formaður stjórnar Spalar segir að tilskipun þessi frá Evrópusambandinu um verðbreytingu með þessum hætti hafi legið í loftinu í dálítinn tíma, en Gísli áréttar að ekkert hafi enn verið ákveðið um það að Ísland samþykki þessa tilskipun ESB. „Norðmenn, sem eru aðilar að EES samningnum eins og Íslendingar, hafa spyrnt við fótum og ekki viljað samþykkja þessa tilskipun. Þeir hafa viljað ráða sínum afsláttarkjörum sjálfir, eins og við hér á Íslandi fram að þessu. Þá höfum við hjá Speli engar fréttir fengið af því hvernig íslenska stjórnsýslan hyggst bregðast við þessari kröfu Evrópusambandsins. Boltinn er því hjá íslenskum stjórnvöldum og spurning um hvort þau verði viljugri en stjórnvöld í Noregi að taka upp þetta ákvæði,“ segir Gísli í samtali við Skessuhorn. Hann segir jafnframt að breyting í þessa veru á afsláttargjöldum fyrir lengri bíla en 6 metra hafi tekið gildi fyrir nokkrum árum í tengslum við umræðuna um pallbíla sem þá voru fluttir inn í þúsundatali og fóru yfir umrædd 6 metra lengdarmörk. Lítill verðmunur sé því á milli hæsta og lægsta verðs hjá stærri bílum í dag.

 

Lánin að fullu uppgreidd 2018

Gísli Gíslason kveðst vona að ef þessi tilskipun verður samþykkt hér á landi fyrir smærri bíla þá yrði farið í breytingar með aðlögun á lengri tíma þar sem ákvæði um undanþágur eru í reglum ESB. „Við vitum hins vegar ekki hvað stjórnvöld hyggjast gera; hvort tilskipun ESB verði samþykkt og þá hvort hún yrði framkvæmd í áföngum. Spölur er hins vegar tilbúinn með ákveðið plan ef þetta verður tekið upp og felur það í sér lækkun á stökum seldum ferðum en verðhækkun á afsláttarferðum. Við höfum hins vegar ekki áhyggjur af að þetta sé að bresta á einn, tveir og þrír. Eftir því sem tíminn líður styttist í að við klárum okkar verkefni. Að líkindum verður árið 2018 búið að greiða upp lán vegna Hvalfjarðarganganna og þá mun Spölur skila mannvirkinu í hendur ríkisins eins og upprunalega og æ síðan hefur verið reiknað með. Vonandi mun því ekki þurfa að koma til svo stórtækra breytinga á verðskránni og hér er til umræðu, en ég ítreka að það er í höndum ríkisins að ákveða það,“ segir Gísli Gíslason.

 

Verulegur kostnaðarauki fyrir fasta notendur

Í dag er 93,5% af allri umferð um Hvalfjarðargöngin sem tilheyrir fyrsta verðflokki, þ.e. bílar undir 6 metra lengd. Af þeim fara 55,7% á mesta afslætti, þ.e. fastir notendur sem greiða 283 krónur fyrir ferðina. Ef af fyrrgreindum breytingum verður munu þær því hafa mest áhrif á íbúa og fyrirtæki sem nýta Hvalfjarðargöng reglulega til atvinnusóknar, skólafólk og aðrir. Fyrir einstakling sem t.d. ekur daglega til vinnu milli Akraness og Reykjavíkur virka daga er kostnaðaraukinn samkvæmt þessu 7.880 krónur á mánuði. Á móti kemur að verðlækkun á ferðum án afsláttar mun vafalítið verða til að auka umferð ferðafólks um vestan- og norðanvert landið og almennt umferð þeirra sem sett hafa eitt þúsund króna vegtoll fyrir sig fram að þessu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is