Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. maí. 2012 09:33

Skagamenn áfram á sigurbraut

Það var spenna og dramatík á Akranesvelli í gærkveldi þegar ÍA tók á móti Íslandsmeisturum KR í fyrsta heimaleiknum í þrjá ár í efstu deild. Skagamenn stóðu uppi sem sigurvegarar í leiknum skoruðu, þrjú mörk gegn tveimur mörkum gestanna. Fyrir leikinn söng kvartett skipaður Akurnesingum lagið „Ég er kominn heim,“ við undirleik Flosa Einarssonar. Þegar leikmenn höfðu heilsast stýrði Pétur Ottesen vallarþulur stuttri minningarathöfn um Sigurstein Gíslason, Skagamann og KR-ing. Klöppuðu leikmenn og áhorfendur fyrir þessum mikla sigurvegara sem vann fjölda titla með báðum þessum félögum.

 

 

 

 

 

Rúmlega þrjú þúsund manns voru mættir á Akranesvöll og leikurinn fór fjörlega af stað. Eins og í Kópavoginum í fyrsta leiknum var ÍA liðið seint í gang. KR-ingar voru á undan á flesta bolta og strax á 11. mínútu bar sókn þeirra árangur. Óskar Örn Hauksson átti þá góða sendingu á Þorstein Má Ragnarsson, Grundfirðinginn knáa, sem snéri af sér varnarmann ÍA í teignum og skaut boltanum af öryggi fram hjá Páli Gísla í fjærhornið. Skagamenn náðu betri tökum á leiknum er á leið og áttu nokkrar góðar sóknir. Á 40. mínútu var brotið á Arnari Má Guðjónssyni rétt fyrir utan teig. Jóhannes Karl Guðjónsson sem rétt áður hafði skotið í slána ofanverða af sama færi, skaut að þessu sinni þrumuskoti með snúningi efst í fjærhornið. Einkar glæsilegt mark og það fyrsta sem Jói Kalli skorar á Ísalandi í 14 ár. Þar með var ÍA búið að jafna metin. KR-ingar gerðu harða hríð að Skagamarkinu í tvígang á lokamínútum fyrri hálfleiks og varði Páll Gísli þá af stakri snilld. Staðan var 1:1 í hálfleik.

 

Seinni hálfleikur byrjaði enn fjörlegar en sá fyrri. Strax á fyrstu mínútunum munaði minnstu að Grétar Sigfinnur Sigurðarson kæmi KR-ingum yfir þegar hann skallaði rétt framhjá samskeytunum. Skömmu síðar, á 5. mínútu, náðu Skagamenn skyndisókn þar sem Gary Martin plataði varnarmenn KR upp úr skónum og sendi góðan bolta fyrir markið. Þar var mættur fyrstur manna Arnar Már Guðjónsson sem sneiddi boltann snyrtilega í nærhornið milli Hannesar markmanns og markstangarinnar. Eftir markið drógu Skagamenn sig til baka, fullmikið því KR-ingar sóttu linnulítið um tíma. Það kom því ekki á óvart þegar þeir jöfnuðu leikinn á 74. mínútu. Aftur sendi Óskar Örn Hauksson glæsisendingu, í þetta sinn á fjarstöngina þar sem Kjartan Henry Finnbogason skallaði í fjærhornið. Allt var á spennupunkti síðustu mínútur leiksins. KR-ingar gerðu sig líklega til að láta kné fylgja kviði og hirða öll stigin, en Skagamenn voru á öðru máli. Gamla brýnið Dean Martin vann boltann fram á vellinum á 83. mínútu og sendi í átt að teignum. Þar varð misskilningur milli Hannesar markmanns og varnarmanns sem gaf Gary Martin færi á að smeygja sér á milli og skora mark sem reyndist sigurmark Akurnesinga.

 

Skagamenn börðust mjög vel í leiknum og uppskáru samkvæmt því, þótt gestirnir stjórnuðu leiknum meira og fengu m.a. 20 hornspyrnur á móti einni hjá ÍA. Páll Gísli Jónsson markvörður var maður leiksins. Vörnin stóð fyrir sínu einkum miðverðirnir. Á miðjunni voru Jóhannes Karl og Arnar Már mjög góðir og Gary Martin síógnandi í framlínunni. ÍA er nú á toppnum ásamt Val eftir tvær umferðir með sex stig.

 

Í næstu umferð leika Skagamenn gegn Fylki í Árbænum og fer sá leikur fram nk. þriðjudagskvöld.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is