11. maí. 2012 02:01
Línubáturinn Tryggvi Eðvarðs SH, sem Nesver í Rifi gerir út, náði þeim áfanga í dag að vera búinn að veiða yfir eitt þúsund tonn það sem af er fiskveiðiárinu. Báturinn kom með sjö tonn að landi nú um tvöleytið í dag og segir Arnar Laxdal Jóhannesson skipstjóri að með því fari aflinn rétt yfir þúsund tonnin. „Þetta er búin að vera mjög jöfn og góð veiði í allan vetur. Mun jafnara en síðustu ár. Við náðum ekki þúsund tonnum á öllu síðasta fiskveiðiári,“ sagði Arnar.
Þrír menn eru í áhöfn Tryggva Eðvarðs og er róið með landbeitta línu. Meðan loðnan gekk yfir veiðisvæðið í Breiðafirði reri báturinn um mánaðartíma frá Grindavík og gekk það vel að sögn Arnars.