Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. maí. 2012 08:01

Átti sér draum að ganga á Akrafjallið

Akrafjallið er mjög vinsælt til uppgöngu og laðar marga Akurnesinga til sín, enda stutt að fara á fjallið frá bænum. Viktor Theodórsson 10 ára hreyfihamlaður drengur í Grundaskóla hafði átt sér þann draum lengi að ganga á fjallið. Hann lét af því verða í síðustu viku þegar útivistardagar voru í skólanum og nemendur og kennarar gengu á fjallið. Móðir hans Kristrún Dögg Marteinsdóttir, einn kennara við skólann, sagðist ekki hafa reiknað með því að Viktor myndi ganga á fjallað heldur láta duga að fara upp í brekkuna neðan við uppgönguna. Það hefði afi hans líka gert, þar sem hann hafi keypt handa honum kíki svo hann gæti skoðað sig um meðan fólkið væri á fjallinu.

 

 

 

Kristrún segir að reyndar hefði hún alveg getað sagt sér það að drengurinn myndi þráast við og fara alla leið, hann væri svo einstaklega duglegur að bjarga sér og jákvæður á allan hátt. Hann færi allra sína ferða á hjólinu og legði því ekki fyrr en hálka og ófærð gerði að vetrinum. „Nafnið hans þýðir sigurvegari og hann hefur fyllilega staðið undir því. Hans karakter er þannig að hann fer þangað sem hann ætlar sér,” segir Kristrún og nefnir að áhugi hans fyrir Akrafjallinu sé miklu meiri en fyrir öðrum fjöllum. Fjölskyldan eigi sumarbústað við Vatnsenda í Skorradal og sé stundum að ganga á fjöll þar. Viktor hafi ekki sýnt því áhuga og vilji í þau skipti frekar fara niður að vatninu með afa sínum.

Viktor er með sjaldgæfan sjúkdóm og fæddist með mikið kreppt hné. Frá því hann var barn hefur hann farið í nokkrar aðgerðir sem hafa beinst að því að lengja sinar og auka möguleika hans til gangs. Kristrún segir að Viktor hafi verið mjög glaður á göngunni upp Akrafjallið og verið vel hvattur af sínum samnemendum. Hann hefði sagt að þetta væri langskemmtilegasti skóladagur ævinnar og meira að segja farið að tala um hvað Mount Everest fjallið væri hátt.

 

Flott útsýni

Viktor sagði í samtali við blaðamann Skessuhorns að það hafi ekki komið til greina annað en fara á fjallið. „Mamma hélt að ég vildi bara bíða í brekkunni en ég var ákveðinn í því að fara upp og það var ekkert rosalega erfitt. Þegar við fórum að ganga meðfram fjallsbrúninni vildi mamma að ég gengi nokkra metra frá brúninni en ég vildi það ekki enda var útsýnið miklu flottara við brúnina og glæsilegt að sjá sveitabæina fyrir neðan. Mamma vildi líka alltaf vera að stoppa og borða af nestinu, það var ábyggilega fyrir það að hún var orðin eitthvað þreytt,” sagði Viktor og hló og leit brosandi á mömmu sína. „Svo þegar við komum ofar varð grjótið stærra á stígunum og erfiðara að fara yfir. Mér sýndist vera stutt eftir en þá komu krókar á stíginn. Þannig að þetta tók lengri tíma að komast á Háahnjúk en mér sýndist á tímabili. Það var rosalega gaman að komast þangað og skrifa í gestabókina. Ég veit ekki hvenær ég geng á Akrafjallið aftur en ég á eftir að ganga á fjöll aftur. Það er alveg víst því þetta var svo rosalega gaman,” sagði Viktor.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is