Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. maí. 2012 08:01

Framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga vill banna sinubruna

Um sumarmál skemmdist eitt elsta skjólbelti landsins í sinubruna á Hvítárbakka. Skjólbeltið er frá því rétt fyrir 1960 og er að sögn Sigvalda Ásgeirssonar framkvæmdastjóra Vesturlandsskóga merkar minjar um þá aðferð sem notuð var við ræktun skjólbelta í upphafi þeirrar starfsemi hérlendis. Þá var viðja eða birki gróðursett sitthvorum megin við tvær greniraðir. Sams konar skjólbelti voru ræktuð á Hvanneyri og í Gunnarsholti og tókust vel, að sögn Sigvalda. Af þessum sökum og vegna annars tjóns sem orðið hefur vegna sinubruna, vill Sigvaldi að þeir verði alveg bannaðir.

 

 

 

 

Sigvaldi segir skjólbeltið gamla á Hvanneyri sé helsta útivistarparadís Hvanneyringa og óspart notað við hvers kyns útisamkomur. Einnig voru gróðursett sams konar skjólbelti á Þórustöðum í Ölfusi og Kornvöllum utan við Hvolsvöll, sem Sigvaldi segir að hafi tekist þokkalega, nema hvað grenið týndi talsvert tölunni í aprílhretinu fræga 1963 sem hófst 9. apríl með því að hitinn lækkaði um nálægt 15°C á innan við tólf tímum. Skemmdir urðu þá mestar í lágsveitum á sunnanverðu landinu, þar sem trjágróður var mjög tekinn að lifna, þegar allt í einu kom um tíu gráðu frost með hvassveðri. Einnig var um þetta leyti sett skjólbelti á Reykhólum, en það mun hafa misfarist.

„Jón eldri á Hvítárbakka sýndi mér skjólbeltið þar árið 1984 og var þá auðsjáanlega stoltur af því. Ég er þeirrar skoðunar að tímabært sé að banna sinubruna og þar verði engar undantekningar leyfðar. Til vara, ef undantekningar eru gerðar, verði fyrst áætlað, hve mikið af koltvísýringi muni losna við að brenna sinuna og viðkomandi landeigandi krafinn um greiðslu fyrir að losa þann koltvísýring. Varla er eðlilegt að við séum krafin greiðslu fyrir að losa koltvísýring með bílunum okkar, en ekki ef við brennum sinu, sem ég fullyrði að væri jafnan hægt að sleppa, án teljandi örðugleika. Reyndar held ég, að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hafi ekki sérstakan áhuga á þessu máli, þar sem með sinubrennslu er hægt að koma í veg fyrir að lítt beitt land klæðist runnagróðri eða skógi. Hún virðist nefnilega eins og sérvitringarnir á Náttúrufræðistofnun Íslands og margir í skipulagsgeiranum, telja að leitast eigi við að koma í veg fyrir hvers kyns breytingar á ásýnd landsins. T.d. er í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem lagt var fyrir sitjandi Alþingi, gert ráð fyrir að skógrækt hlíti sams konar takmörkunum af hálfu yfirvalda og geymsla kjarnorkuúrgangs, þ.e. verði í sama flokki í viðauka.”

Sigvaldi telur að ef menn ætli að fara út í ávaxtarækt sem atvinnugrein á Íslandi, verði slíkt ekki gert nema þar sem fyrst hefur verið ræktað skjól með skjólbeltum. „Ég nefni þetta sem dæmi um hvað þeir sem ekki rækta skjólbelti eru að fara á mis við af tækifærum. Jafnframt er ljóst að uppskera í kornrækt og ræktun garðávaxta er miklu betri á skýldu landi en á berangri. Skjólbeltarækt og sinubrennsla fara seint saman,” segir Sigvaldi að endingu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is