02. júní. 2012 11:01
Í tilefni sjómannadagsins á morgun fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning í gær, föstudag, frá Verkalýðsfélagi Akraness. Þar voru á ferðinni sjómennirnir Jóhann Örn Matthíasson og Tómas Rúnar Andrésson sem gáfu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk.
Þrátt fyrir að hátíð hafsins hafi verið blásin af á Akranesi þetta árið munu slysavarnakonur á Akranesi halda upp á sjómannadaginn eins og jafnan með glæsilegri kaffisölu í Jónsbúð í dag frá kl. 13:30 til 16. Á sjómannadaginn sjálfan, á morgun, verður athöfn við minnisvarða um drukknaða og týnda sjómenn klukkan tíu í kirkjugarðinum að Görðum. Klukkan ellefu verður sjómannamessa í Akraneskirkju þar sem aldraðir sjómenn verða heiðraðir. Að messu lokinni verður gengið að Akratorgi og blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna.
Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að þrátt fyrir að Hátíð hafsins hafi verið blásin af verði ýmislegt að gerast í bænum um helgina og haldið verði upp á sjómannadaginn að venju. Á Safnasvæðinu er nú fjöldi eldsmiða að störfum og verða þeir við iðju sína fram á sunnudag. Þá er von á hópi erlendra listamanna á Akranes í dag, laugardag og standa vonir til þess að þeir nái að skapa listaverk sem verði til sýnis í sumar. Þeir byrja á að heimsækja eldsmiðina á Safnasvæðinu en halda þar næst á Breiðina þar sem listaverkið verður væntanlega skapað, seinni part dags. Þá verður stóri vitinn á Breiðinni opinn í dag frá kl. 11 til 16 og opið verður á Aggapalli, enda fjölmennt sundmót í gangi á Jaðarsbökkum um helgina. Er því von á fjölda góðra gesta í bæinn, sem eflaust vilja njóta veðurblíðunnar við Langasand ásamt heimamönnum.