07. júní. 2012 10:30
Veitingasala á Aggapalli við Langasand á Akranesi hefur verið stöðvuð tímabundið að beiðni sýslumanns og heilbrigðisfulltrúa Vesturlands þar sem tilskilin leyfi voru ekki til staðar til þeirrar starfsemi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Árni Múli Jónasson bæjarstjóri á Akranesi hefur sent frá sér. Veitingasala hófst á pallinum þann 1. júní síðastliðinn en nokkru síðar barst fyrirspurn til byggingafulltrúa Akraneskaupstaðar frá söluaðila veitinga í bænum þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hvort umsjónaraðili umræddrar veitingasölu hefði til þess öll tilskilin leyfi. Byggingafulltrúi leitaði til sýslumanns, sem hefur umsjón með útgáfu slíkra leyfa, og óskaði eftir svari við þessari fyrirspurn og komst að því að svo var ekki. Afrit af þessari fyrirspurn var einnig sent til ÍA en það er Knattspyrnufélag ÍA sem hafði umsjón með veitingasölunni auk þess að fara með ákveðið eftirlitshlutverk á pallinum.
„Ljóst má vera að það er hagur Akraneskaupstaðar að hafa þjónustu og aðstöðu á Aggapalli sem fjölbreyttasta, ekki aðeins fyrir gesti og ferðafólk heldur líka íbúa á Akranesi sem sækja mjög á Langasand og nýta sér frábæra aðstöðuna á Aggapalli. Akraneskaupstaður mun því að sjálfsögðu hraða eftir fremsta megni þeirri umsögn sem sýslumaður kallar eftir til þess að geta boðið upp á alla þá þjónustu sem að var stefnt á Aggapalli, en að sjálfsögðu að því gefnu að aðstaðan á Aggapalli standist þær kröfur sem reglur kveða á um. Það er því von mín að mál þetta leysist skjótt og farsællega þannig að sem fyrst megi hefja aftur veitingasölu á Aggapalli,“ sagði Árni Múli að lokum.
Tilkynningu bæjarstjóra má lesa í heild sinni hér.