11. júní. 2012 08:01
Leikur Víkings Ó og Þróttar fór fram í blíðskaparveðri í Ólafsvík síðastliðinn laugardag en leiknum lauk með 2-1 sigri heimamanna. Staðan var markalaus í hálfleik en Víkingsmenn voru búnir að vera sterkari aðilinn í leiknum í fyrri hálfleik. Eldar Masic átti sláarskot og seinna náði Ögmundur Ólafsson markvörður Þróttar að verja skalla frá Guðmundi Magnússyni í slánna. Markvarsla á heimsmælikvarða.
Víkingar náðu að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik og var þar að verki Edin Beslija, en markið var dæmt af vegna rangstöðu við lítinn fögnuð heimamanna.
Seinni hálfleikurinn byrjaði líkt og sá fyrri endaði. Víkingarnir voru meira með boltann og stjórnuðu leiknum. Þróttararnir vörðust vel og beittu skyndisóknum. Það var svo á 70. mínútu að Þróttarar komust yfir eftir hornspyrnu og var þar að verki Oddur Björnsson og skoraði hann með glæsilegum skalla.
Víkingarnir vöknuðu þá til lífsins og sóttu af krafti, og það skilaði sér með marki á 75. mínútu þegar besti maður leiksins Eldar Masic skoraði eftir glæsilegan samleik við Edin Beslija. Í stöðunni 1-1 komu Þróttararnir framar á völlinn og nýttu Víkingarnir sér það og skoraði Guðmundur Steinn Hafsteinson gott mark á 82. mínútu leiksins, og tryggði þar Víkingum þrjú dýrmæt stig. Víkingur Ó. er með 10 stig eftir sigurinn og situr í þriðja sæti fyrstu deildarinnar, aðeins einu stigi á eftir Fjölni og Haukum sem eru í tveim efstu sætunum. Næsti leikur Víkinga í deildinni er einmitt gegn Haukum á útivelli næstkomandi föstudag.