11. júní. 2012 11:50
Bændur á nokkrum bæjum í Borgarfirði og Hvalfjarðarsveit hófu slátt um liðna helgi og nýttu þurrkinn sem einkennt hefur veðráttuna síðustu daga. Í uppsveitum Borgarfjarðar má nefna bændur á Steindórsstöðum og Norður Reykjum sem hófu slátt síðasta laugardag og í Hvalfjarðarsveit hófst sláttur á nágrannajörðunum Kjaransstöðum og Vestra Reyni sama dag og í Belgsholti á sunnudaginn. Að sögn þeirra bænda sem rætt hefur verið við er spretta þokkaleg en þó er þurrkur nokkuð farinn að draga úr sprettu. Á sunnanverðu Snæfellsnesi virðist hafa rignt heldur meira en í Borgarfirði og lofar spretta jafnvel á sendnum túnum eins og í Kolbeinsstaðahreppnum býsna góðu. Síðasta laugardag þegar blaðamaður ók um Snæfellsnesið sást þó ekki til bænda við slátt.
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna og bóndi á Vestra Reyni sagði ágæta sprettu þar sem hann hafi byrjað slátt á laugardaginn, á nýrækt og snemmábornum túnum. Sagði hann útlit fyrir veðurbreytingu um næstu helgi og því ætlaði hann og fleiri kúabændur að nýta þurrkinn næstu daga. „Það er aldrei að vita hversu langt verður í næsta þurrk ef hann leggst í suðvestanátt og því er um að gera að nýta góða tíð til heyskapar þar sem eitthvað er sprottið,“ sagði Haraldur í samtali við Skessuhorn sl. mánudagsmorgun.