11. júní. 2012 03:17
Náttúruvísindafólk hjá Náttúrustofu Vesturlands og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi fór fyrir helgina út í Hvítabjarnarey á Breiðafirði að kanna varp ritu. Jón Einar Jónsson forstöðumaður Rannsóknasetursins segir varpið fara vel af stað hjá ritu þetta vorið, tvö og þrjú egg hafi verið í hverju hreiðri. Þá fundust fyrstu kríuhreiðrin á Stykkishólmsflugvelli þann 8. júní, sem er í fyrra fallinu miðað við flest undanfarin ár. Varp ritu og kríu hefur misfarist nánast algjörlega síðustu tvö til þrjú árin og verið í slakara lagi frá árinu 2004.
„Hjá ritunni skoðuðum við 240 hreiður og þar af voru tveir þriðju með tveimur eggjum í hreiðri. Undanfarin þrjú ár hafa hreiður með ekkert eða eitt egg verið í meirihluta. Þetta bendir til að fullorðnu riturnar séu í betra líkamlegu ásigkomulagi núna,” segir Jón Einar. Hann segir að framvindan fari reyndar mikið eftir sílisgengd síðsumars. Varp bæði kríu og ritu byrjaði ágætlega vorið 2008 en síðan brást sílagengdin síðsumars sem olli miklum afföllum. Auk skoðunar á varpinu í Hvítabjarnareyjum verður líka farið í björgin til eggjatalningar, í Svörtuloft, Þúfubjarg og á Arnarstapa. Sá leiðangur verður farinn í næstu viku, að sögn Jóns Einars.