13. júní. 2012 11:01
Rarik mun í sumar leggja 33 kV háspennustreng og tvo 11 kV háspennustrengi frá aðveitustöðinni við Brennimel að iðnaðarsvæðinu við Grundartanga. Að sögn Björns Sverrissonar deildarstjóra hjá Rarik er ráðist í þessar framkvæmdir vegna nýrrar stálendurvinnsluverksmiðju GMR og vaxandi orkuþarfar á svæðinu.
Framkvæmdin kallar á nýtt úttak fyrir 132/33 kV spenni í aðveitustöðinni við Brennimel og rofabúnað. Áætlaður kostnaður vegna framkvæmdarinnar er um 430 milljónir og er með þeim stærri hjá Rarik á þessu ári, að sögn Björns. Ráðgert er að GMR endurvinnslan hefji framleiðslu í byrjun næsta árs, en hráefnið sem verksmiðjan mun nýta verður að stærstum hluta brotamálmur sem fellur til frá álverum á Íslandi.