14. júní. 2012 06:30
Byggðarráð Dalabyggðar hefur samþykkt að farið verði í framkvæmdir við dýpkun Búðardalshafnar. Siglingastofnun hefur áætlað að viðhaldsdýpkun Búðardalshafnar kosti um þrjár milljónir króna. Samþykktur hlutur Siglingastofnunar er að hámarki 2,7 milljónir, en Dalabyggð ber 25% kostnaðar af framkvæmdinni eða allt að kr. 750.000.
Að sögn Sveins Pálssonar sveitarstjóra Dalabyggðar er áætlað að dýpka höfnina um 600 rúmmetra. Vonast er til að farið verði í dýpkunina þegar líður á sumarið. Þetta er í fyrsta skiptið sem dýpkað er frá því ráðist var í gerð smábátahafnarinnar fyrir rúmum tíu árum. Sveinn sveitarstjóri segir að útgerð sé ekki mikil frá Búðardal, bátarnir séu fleiri í Skarðsstöð við Gilsfjörðinn, en þaðan eru nokkrir bátar gerðir út. „Það er þó nokkur umferð um höfnina hér, til að mynda í kringum kræklingaeldið. Það munaði meira að segja minnstu að menn strönduðu um daginn, þannig að dýpkun er orðin vel tímabær,” segir Sveinn Pálsson sveitarstjóri Dalabyggðar.