Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
13. júní. 2012 03:01

Stofna víkingafélag í Grundarfirði

Félagarnir Markús Ingi Karlsson og Þorgrímur Kolbeinsson munu stofna víkingafélagið Glæsir í Grundarfirði á næstu vikum. Þeir eru búnir að sækja um lóð hjá bæjarfélaginu þar sem þeir ætla að byggja langhús eftir stíl víkinga. „Víkingafélagið mun starfa í nánu samstarfi við Sögumiðstöðina Eyrbyggju og verður systurfélag víkingafélagsins Rimmugýgs í Hafnarfirði. Við ætlum svo að hafa stofnfund á næstu vikum, en það verður auglýst síðar í fjölmiðlum á svæðinu,“ segir Þorgrímur.

Strákarnir vilja byggja langhúsið við hestasvæðið í Grundarfirði og vilja vera í góðu samstarfi við hestamenn bæjarins. Einhverja peninga þarf til að byggja langhús en strákarnir hafa ekki miklar áhyggjur af því. „Efniviðurinn í húsið er allur í jörðinni,“ segir Markús. „Við erum að skipuleggja steinhleðslunámskeið og erum búnir að vera í sambandi við menn sem halda slík námskeið. Námskeiðið gætum við notað til þess að hlaða veggina í húsinu, frekar en að hlaða eitthvað upp bara til að taka það niður aftur. Í rauninni er timbrið í þakið það eina sem mun kosta einhverja peninga, en það er verið að róa fyrir því í sumar,“ segir Þorgrímur en hann er nú á strandveiði og leggur til hliðar tekjur af veiðunum fyrir þakinu.

 

 

 

 

 

Rík saga á svæðinu

„Við erum með ríka víkingasögu hérna á svæðinu. Hérna rétt innan við Grundarfjörð var stærsta langhús Íslands. Þar sem Vestarr Þórólfsson nam land og byggði. Eyrbyggjasaga er mjög góð heimild um ríka sögu svæðisins. Aðra helgina í ágúst ætlum við svo að halda víkingahátíð.“ Þeir Þorgrímur og Markús telja starfsemi víkingafélags vera góða leið til að draga að ferðamenn. „Það koma um 120 þúsund ferðamenn á Snæfellsnesið á hverju ári og það koma 18 skemmtiferðaskip í Grundarfjörð í sumar. Þó við fáum ekki nema eitt prósent af þessum hópi til að stoppa í bænum og kíkja á okkur, þá er það heljarinnar fjöldi. Það er oft talað um það að ferðamenn keyri mikið hérna í gegn og kaupi lítið og slíkt. Það þarf að gera eitthvað til að fá fólkið til að stoppa,“ segir Þorgrímur. „Eins og með Snorrastofu í Reykholti, þangað fara fullt af ferðamönnum og Íslendingar líka.“

Mikill áhugi hefur nú þegar myndast um félagið og mikið af fólki mætt á vinnustofu Þorgríms og lært að gera armbönd úr leðri skreytt rúnum og fleira. Markús er einnig að smíða vopn og skildi sem nota á í félaginu. „Þetta er svo góður félagsskapur og góð afþreying líka,“ segir Þorgrímur. „Við erum komnir með á blað 20 hugmyndir af námskeiðum sem við getum haldið eins og leðurvinnslu, silfurvinnslu og margt fleira. Vinnustofan hjá mér er búin að vera eins og félagsmiðstöð.“ Þess má að lokum geta að á morgun, fimmtudag, fer Þorgrímur í viðtal á Rás 1 um stofnun Glæsis í þættinum Liðast um landið.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is