14. júní. 2012 01:46
Konunni sem slasaðist í brunanum í Borgarnesi í nótt er haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík að sögn vakthafandi læknis. Hún verður því áfram undir öruggu eftirliti lækna. Konan flúði húsið með því að stökkva út um glugga á annarri hæð suðurhliðar þess, en þar er fallhæð um átta metrar.
Í samtali við Skessuhorn nú fyrir stundu sagði Bjarni Þorsteinsson slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Borgarbyggðar að ekki liggi enn fyrir hver orsakir eldsvoðans voru. Fulltrúar rannsóknardeildar Ríkislögreglustjóra og Mannvirkjastofnunar væru eins og sakir standa að vinna að rannsókn eldsupptaka í húsinu. Ljóst er hins vegar að eldurinn kviknaði í risi hússins á annarri hæð þar sem hann logaði þegar slökkvilið bar að garði. Enginn bruni varð hins vegar í kjallara og á fyrstu hæð, en þar urðu þó töluverðar vatnsskemmdir að sögn Bjarna.