15. júní. 2012 06:30
„Af og til kemur fyrir að viðskiptavinir okkar láta starfsfólk í gjaldskýli eða á skrifstofunni á Akranesi heyra það svo um munar. Við höfum nýlegt dæmi um fáheyrðan dónaskap í samskiptum af þessu tagi, sem er tilefni eftirfarandi hugleiðingar,” segir í pistli á heimasíðu Spalar. Þar segir að tilvikin varði oft í sambandi við veggjaldið á einn eða annan hátt. Tilefnið geti líka verið að menn hafi fært veglykil á milli bíla, en slíkt er óheimilt samkvæmt samningi sem viðkomandi gerir við Spöl í upphafi áskriftarferils og staðfesta með undirskrift. Veglykill er skráður á tiltekinn bíl og á að vera þar fastur. Reyndar komi ótrúlega oft í ljós, þegar reynir á tiltekin ákvæði áskriftarsamningsins, að fólk hafi ekki kynnt sér efni hans áður en það skrifaði undir, ekki einu sinni feitletruð lykilatriði samningstextans.
„Fyrir kemur líka að menn ausa úr skálum reiði sinnar í tilefni af því að veggjald skuli innheimt yfirleitt. Viðkomandi fullyrða þá að Spölur hafi nú þegar greitt allar skuldir sínar vegna framkvæmda við gangagerðina forðum og haldi samt áfram að innheimta veggjald. Þetta er auðvitað fráleitt og best að endurtaka það enn einu sinni, af gefnu tilefni, að miðað er við að skuldir greiðist upp síðla árs 2018 og í framhaldinu fái ríkið mannvirkið afhent skuldlaust. Þetta er allt í fullu samræmi við samninga ríkisins og Spalar sem Alþingi staðfesti,” segir m.a. í pistlinum á heimasíðu Spalar.
Þar segir að starfsmenn Spalar séu ráðnir til að veita viðskiptavinum góða þjónustu og það geri þeir. Ástæða sé til að ítreka að vaktmenn í gjaldskýli veiti engar upplýsingar um notkun veglykla, t.d. hve margar ferðir áskrifandi á eftir á reikningi sínum. Það sé ekki í verkahring vaktmanna að upplýsa um slíkt, enda er gjaldskýlið ekki tölvutengt innheimtukerfi Spalar. Þeir sem vilja upplýsingar úr innheimtukerfinu hafi samband við skrifstofu félagsins, í síma 431-5900. Kurteisi er eðlilegur samskiptamáti og kostar ekkert, segir í lok pistilsins.