15. júní. 2012 11:11
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur verið á ferðinni á Akranesi í morgun ásamt eiginkonu sinni Dorrit Moussaieff. Forsetahjónin hafa heimsótt fyrirtæki og stofnanir í bænum og kynnt framboð Ólafs til áframhaldandi setu í forsetaembætti. Einnig hittu forsetahjónin fjölmarga keppendur á Norðurálsmóts ÍA í 7. flokk sem fram fer um helgina á Akranesi, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ólafur Ragnar sagði í samtali við blaðamann Skessuhorns að dagskráin hjá sér sé þétt skipuð. Hann og Dorrit séu nýkomin frá ferðalagi um Austfirði og í dag sé framundan heimsókn í Norðurál á Grundartanga og í útvarpsþátt á Útvarpi Sögu. Rúmlega tvær vikur er nú til kjördags en kosið er laugardaginn 30. júní.