15. júní. 2012 12:04
Það var heldur betur fjör á planinu við Ráðhúsið á Akranesi fyrir hádegið þegar þátttökuliðin á Norðurálsmótinu hópuðust þar saman til skrúðgöngu sem gengin var þaðan í Akraneshöllina þar sem mótssetningin fór fram um hádegisbilið. KR-ingar voru fyrstir á svæðið og létu að sér kveða en síðan bættust liðin í hópinn og komu marserandi á Ráðhúsplanið. Gleðin skein úr hverju andliti og margir sungu hástöfum, svo sem Selfyssingar sem áttu svæðið á tímabili.
Alls eru 144 lið skráð til keppni, en keppendur eru í 7. flokki og á aldrinum 7-8 ára. Tæplega þrjátíu félög eiga fulltrúa á mótinu, en leikið verður á fjölda valla fram á kvöld, allan morgundaginn og úrslitaleikirnir fara síðan fram á sunnudagsmorgun.