18. júní. 2012 09:39
Eins og venja hefur verið á síðustu árum hefur verið útnefndur bæjarlistamaður á 17. júní hátíðinni í Snæfellsbæ. Að þessu sinni útnefndi lista og menningarnefnd Snæfellsbæjar þetta árið Kára Viðarsson. Árið 2010 setti Kári upp einleikinn Hetju í Frystiklefanum í Rifi og henni stýrt af Víkingi Kristjánssyni úr Vesturporti. Árið 2011 hlaut Kári styrk frá Evrópusambandinu til þess að hefja framkvæmd á þessu verkefni sem, ásamt góðri hjálp frá fyrirtækjum, einstaklingum og bæjarfélaginu, gerði Kára kleift að koma Frystiklefanum á laggirnar. Í ár var sýningin ,Góðir hálsar sett upp en hún er byggð á sögu Axlar Bjarnar og hlaut mikið lof. Nú í vor var svo fyrsta aðkeypta sýning Frystiklefans, Trúðuleikur eftir Hallgrím H. Helgason í leikstjórn Halldórs Gylfasonar sett upp og er enn í fullum gangi.
Kári verður hlaðinn verkefnum á næstunni eins og að leika í þáttum um Íslendingasögurnar í sumar og svo mun hann leikstýra sýningunni Rocky Horror í haust. Þá mun hann leika í þremur leikritum í vetur.
Kári hefur að auk tvisvar verið tilnefndur til verðlauna í ár. Fyrst til menningarverðlauna DV fyrir sýninguna Góðir hálsar, og svo til Grímunnar sem sproti ársins- frumkvöðla- og nýsköpunarverðlauna sem nú voru veitt í fyrsta skipti.