19. júní. 2012 08:43
Grundarfjörður og Hvíti Riddarinn mættust á Grundarfjarðarvelli í gærkvöld. Bæði þessi lið sigldu lygnan sjó í sínum riðli og voru í álíka málum. Það speglaðist líka í leiknum því að mikið jafnræði var með liðunum. Grundfirðingar voru ívið meira með boltann án þess þó að skapa sér nein hættuleg færi. Mosfellingar í Hvíta Riddaranum áttu nokkrar álitlegar skyndisóknir á móti en sterk vörn heimamanna átti svör við þeim öllum. Það fór því þannig að liðin skildu jöfn og skiptu með sér stigunum í markalausum leik. Viktor Örn Jóhannsson átti stórleik í marki heimamanna og varði nokkrum sinnum gríðarlega vel og bjargaði til að mynda meistaralega undir lok leiksins þegar að leikmaður Hvíta Riddarans átti þrumuskot á markið. Næsti leikur Grundarfjarðar verður gegn toppliðið Víðis í Garðinum föstudaginn 22. júní næstkomandi.