21. júní. 2012 06:30
Borgarbyggð hefur ráðstafað þremur milljónum króna til stígagerðar í Borgarnesi í ár. Framkvæmdir munu hefjast í sumar að sögn Jökuls Helgasonar forstöðumanns framkvæmdasviðs Borgarbyggðar. Um er að ræða þrjú verkefni. Í fyrsta lagi verður borið ofan í stíg fyrir neðan Kveldúlfsgötu, meðfram Dílatangavík. Stígurinn liggur frá húsunum Kveldúfsgötu 15 og 17 til húsanna Kjartansgötu 25 og 27. Í öðru lagi verður borið ofan í stíg sem liggur um Vesturnes, frá íþróttasvæðinu á Skallagrímsvelli að Englendingavík. Stígurinn verður jafnframt breikkaður svo hann verði fær t.d. barnavögnum. Loks verður gerður stígur á grunni slóða frá enda Þórðargötu og niður fyrir kirkjugarðinn við Kveldúlfsgötu. Jökull segir að frekari stígagerð verði á döfinni í ár ef fjármagn fæst til verksins. Verið sé að skoða mögulega stígagerð frá leikskólanum Klettaborg að tjaldstæðinu á Granastöðum.
Stígur að Hamarsvelli, Vindási og Einkunnum bíður
Aðspurður um stöðu fyrirhugaðrar stígagerðar frá Bjargslandi, nyrst í Borgarnesi, að golfvellinum að Hamri sagði Jökull að þær fyrirætlanir bíði um sinn. Ekki væri vilji hjá landeigendum á Bjargi að fá í land sitt þann stíg sem Borgarbyggð hafði á prjónunum. Um er að ræða stíg sem liggja myndi í góðri fjarlægð frá þjóðvegi 1 og henta göngufólki jafnt sem hjólreiðafólki. Stígurinn myndi auk þess tengja betur hesthúsahverfið að Vindási og fólkvanginn í Einkunnum við umferð gangandi vegfarenda, auk þess sem öryggi vegfarenda yrði mun betur tryggt en nú er. Jökull segir að íbúar í Borgarnesi hafi sýnt stígagerðinni mikinn áhuga. Framkvæmdin yrði hins vegar dýr í framkvæmd enda er leiðin að Hamri um 1,5 km.