20. júní. 2012 01:26
Í gær veittu fulltrúar Háskóla Íslands styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkþegar eiga það sammerkt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi auk þess sem þeir hafa verið aðsópsmiklir á öðrum vettvangi, svo sem í listum, íþróttum og félaslegu starfi. Alls var 26 nemendum veittir styrkir sem koma frá menntaskólum um land allt. Tveir Vestlendingar voru meðal þeirra, þau Alexander Gabríel Guðfinsson úr Menntaskóla Borgarfjarðar og Dagný Björk Egilsdóttir úr Fjölbrautaskóla Vesturlands, Akranesi.
Dagný Björk, var dúx frá FVA um síðustu jól. Dagný hefur að auki stundað tónlistarnám við Tónlistarskóla Akraness og æft karate við góðan orðstír. Þar ber hún svarta beltið og hefur unnið Íslandsmeistaratitla í kata og hópkata.
Alexander Gabríel, var dúx frá MB í vor. Gabríel, sem verður 18 ára í haust, hefur auk þess æft sund af miklu kappi, keppt í dansi og náð góðum árangri í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna síðustu tvö ár.
Bæði Gabríel og Dagný stefna á nám í læknisfræði við Háskóla Íslands í haust.