20. júní. 2012 01:34
Lundavarp í hinni landföstu eyju Knarrarnesi á Mýrum er nú í stórhættu af völdum minks sem sækir stíft út í eyjuna á fjöru. Nýverið voru þrír minkar drepnir í eyjunni en að sögn Birgis Haukssonar veiðimanns er engu líkara en tveir nýir minkar bætist við fyrir hvern þann sem drepinn er. Á meðfylgjandi mynd er einungis hluti af þeim feng sem einn minkur náði á vikutíma í eyjunni, en myndin var tekin í gær. Þessari veiði raðaði minkurinn sjálfur upp og má sjá um fjörutíu dauða fugla og tuttugu eggjum sem vargurinn virðist hafa fyrir að bera úr holunum eftir að hann drepur fuglinn. Ef ekki tekst að vinna á minknum og öðrum vargi mun hann stráfella allan fugl í eyjunni. Hægt er að rifja upp að fyrir um fjörutíu árum komst einn minkur í Hríseyjar á Breiðafirði og drap þá allan lunda í eyjunum. Síðan hefur lundi ekki orpið þar.
Birgir Hauksson segir fuglavarp í stórhættu í Knarrarnesi og mikilvægt að aukið verði við veiðar til að freista þess að halda ref og mink í skefjun. „Þetta er allt í stórhættu því að það virðast bara koma tveir minkar úr landi fyrir hvern þann sem drepinn er. Kannski er þetta ekki skrýtið þar sem Borgarbyggð er nánast orðin friðland fyrir mink, tófu og alls konar óværu aðra,“ segir Birgir Hauksson.