21. júní. 2012 04:29
Verðlagnefnd búvara hefur ákveðið að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 4% frá og með 1. júlí. Segir í fréttatilkynningu frá nefndinni að á sama tíma muni afurðastöðvarverð til bænda hækka sem nemur 2,80 kr. á lítra mjólkur eða um 3,6%. Afurðarstöðvarverð fer því úr 77,6 kr. í 80,43 kr. Vinnslu- og dreifingarkostnaður mjólkur hækkar um tæp 4,4%. Orsakir verðbreytinganna segir nefndin vera vegna launabreytinga og verðhækkana á aðföngum til reksturs búa. Í Verðlagsnefnd búvara sitja fulltrúar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis, verkalýðshreyfingarinnar, bænda og mjólkuframleiðenda. Nefndin hefur það hlutverk að ákveða afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu.